Enn er verið að sýna verkið Sjöundá í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu en verkið er byggt á sannsögulegum atburðum og fjallar um morð og aftöku sem áttu sér stað hér á landi árið 1802.
Það er nokkuð ótrúlegt til þess að hugsa að á Íslandi voru hýðingar lengi algeng refsing við margvíslegum brotum á meðan fangelsisvist þekktist vart. Fyrir alvarlega glæpi voru afbrotamenn líflátnir. (Þeir síðustu árið 1830).
Leikritið er m.a. byggt á sögulegu skálsdsögunni Svartfugl eftir eitt okkar þekktasta skáld Gunnar Gunnarsson (sem kom út á dönsku árið 1929). Það er leikhópurinn Aldrei óstelandi sem vinnur leiksýningu upp úr efniviðnum en hópinn skipa leikararnir; Edda Björg Eyjólfsdóttir, Harpa Arnardóttir, Stefán Hallur Stefánsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson og leikstjóri er Marta Nordal. Það er vissulega margt sem ekki kemur fram í verkinu sem má finna í heimildum en það er viljandi gert því áherslan er á atburðina á Sjöundá og yfirheyrslurnar yfir hinum seku.
Verkið er sjálfstæð aðlögun úr efninu og það er alveg óhætt að fara að sjá það án þess að hafa lesið bókina eða á annan hátt kynnt sér söguna. Til dæmis er upplestur úr Svartfugli í byrjun. Að heyra svona gamlan upplestur er eitthvað svo sérstakt og flott. Fólk talaði og hljómaði öðruvísi í þá daga og ekki skemmir fyrir að það er Gunnar sjálfur sem les.
Ég vil byrja á því að tala um lýsinguna sem er í höndum Egils Ingibergssonar en hann hefur þarna náð að skapa á ofur einfaldan máta myrka veröld sem skerpir verulega á karakterunum. Lýsingin er einföld en gefur svo mikið. Lýsingin er t.d. notuð til þess að varpa skugga á eitthvað atvik eða skapa glundroða og þar með “varpar hún ljósi” (í orðsins fyllstu) á það hvað gengur á í innri veröld þeirra sem verkið fjallar um. Það gekk svo vel upp að það var stundum sem hægt væri að sjá inn í innstu sálarfylgsni persónanna.
Leikmyndin sjálf er ósköp einföld en það hentar sögunni vel. Bakgrunnur er tjald þar sem stundum er varpað upp myndum og á sviðinu eru fjögur rúm sögupersónanna. Tómleikinn fær vægi í gegnum leikmyndina og áhorfandinn verður var við fátækleikann, tilbreytingarleysið og víðáttuna. Myndunum sem varpað var upp á tjaldið voru ýmist úr náttúrunni eða af leikurunum sjálfum. Það voru fallegar myndatökur Bersteins Björgúlfssonar. Stundum fannst mér þó sem augað flakkaði of mikið um rýmið, að spara hefði mátt þetta tilbrigði, sem var annars fallegt.
Sagan er hádramatísk enda um ástríðu og morð. Leikararnir segja söguna vel, hafa góða framsögu og gefa ekkert eftir en eins og áður sagði spilar inn í lýsingin sem ýtir undir upplifunina af annars góðum leik. Ég var næstum búin að gleyma að minnast á hljóðmynd Stefáns Más Magnússonar en hef heyrt einhversstaðar að það sé mikið hrós ef ekkert er minnst á hana, því þá hafi hún verið eðlilegur hluti af verkinu. Tónlistin passaði verkinu einkar vel að mínu mati.
Ástríðan sem sýnd er gat verið þvílík að mér finnst ég verða að segja að ég mæli ekki með því að fólk fari að sjá þessa sýningu “á fyrsta deiti”. Þrátt fyrir að ganga langt að þessu leyti get ég ekki séð hvernig hefði átt að gera öðruvísi.
Mér fannst mér hafa verið snarað aftur í tímann og senurnar voru margar hverjar svo áhrifaríkar og að ég fékk gæsahúð. En ég skal líka vera fyrst til að viðurkenna að ég er bæði veik fyrir dramatískum leikritum og myndlist – og þarna var komin blanda af þessu tvennu!
Sem sagt veisla fyrir augað um leið og ástríðufull saga skilar sér vel til áhorfenda. Mjög flott verk í alla staði. Ég hefði ekki viljað missa af þessari sýningu.
Að lokum eru hér brot sem sýna góða framsögu leikaranna og kynnir persónurnar:
Næstu sýningar eru nú á Miðvikudag og föstudaginn tuttugasta apríl. Miðapantanir eru í Þjóðleikhúsinu í s.5409800
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.