Tveir karlmenn, annar stór og mikill, hinn lítill og nettur, ein sena, góð tónlist og fullt, fullt af tilfinningum.
Verkið RAUTT í Borgarleikhúsinu segir frá rússnesk-ættaða málaranum Mark Rothko (sem af mörgum er talinn einn sá merkasti sem uppi var á síðustu öld) og samskiptum hans við aðstoðarmann sinn Ken. Sagan gerist í New York fyrir sirka 50 árum.
Rothko er leikinn af Jóhanni Sigurðarsyni en Hilmar Guðjónsson leikur aðstoðarmanninn Ken. Þeir eru báðir sannfærandi í hlutverkum sínum og samspilið á milli þeirra frábært. Frábær orka. Tveir gjörólíkir karlmenn, sitthvor kynslóðin og sitthvor viðhorfin sem rákust hressilega á.
Mér fannst persóna Rothko mjög kunnugleg og Jóhann túlkaði hann alveg frábærlega! Sjálfbirgingslegur bumbukarl sem hefur algjöra ofurtrú á eigið gildismat og lífssýn og er lítið forvitin um sjónarhorn annara á veröldina. Hver hefur ekki hitt svona kauða? Ken skottast í kringum hann, heillaður og pirraður í senn. Svona eins og meðvirkur sonur.
Sviðsmyndin er frábær, risastór rauð málverk upp um allt og krafturinn áberandi.
Ef þú heillast af árabilinu upp úr 196o áttu eftir að hafa’extra’ gaman af þessu en sagan gerist m.a. á því tímabili þegar Andy Warhol var að ryðja sér til rúms á senunni í New York og Chet Baker heillaði mannskapinn með fallegu röddinni sinni.
Þess heldur áttu eftir að hafa gaman af þessari sýningu ef þú ert myndlistarunnandi en það er ekkert nauðsynlegt samt því pælingarnar í verkinu ganga út á svo margt sem tengist mennsku og okkar snúnu tilveru.
Höfundur verksins, John Logan (f. 1961), hefur skrifað fjölmörg leikrit og kvikmyndahandrit og víða fengið fyrir þau verðlaun og viðurkenningar. Hann skrifaði m.a. handrit að kvikmyndunum The Aviator, Gladiator og Hugo sem allar hlutu tilnefningar til Óskarsverðlauna.
Smelltu HÉR til að fræðast meira um verkið en miðaverðið er 4.100 kr og verkið er í rúmar tvær klukkustundir í sýningu. Hverrar mínútu virði.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.