Sindri silfurfiskur er barnaleikrit eftir Áslaugu Jónsdóttur en hún er líka þekkt fyrir barnaleikrit sitt Gott kvöld.
Nú um helgina fór leikhópur frá Þjóðleikhúsinu til Moskvu þar sem leikritið Sindri silfurfiskur verður sýnt á mikilli barnaleikhúshátíð. Boð barst til leikhússins í kjölfar tveggja leikferða með sýninguna til Svíþjóðar. Þær voru barnaleikhúshátíðirnar BIBU ogASSITEJ.
Rússarnir sáu leikritið og hrifust svo af því, að þeir bjóða heilum 10 manna hópi til Moskvu.
Sindri Silfurfiskur er leikverk fyrir yngstu börnin um dulúðlegar og heillandi sjávarverur. Það varð til þegar þau Áslaug Jónsdóttir og Þórhallur Sigurðsson tóku upp kynni við brúður sem til voru í Þjóðleikhúsinu úr sýningu frá árum áður, sem hét Krukkuborg. Það var búningahönnuðurinn Una Collins sem skapaði þessar sjávarverur fyrir rúmum þremur áratugum.
Í fyrsta sinn sem Þjóðleikhúsið sýnir í Rússlandi!
Til þess að börnin skilji nú allt hefur leikritið verið þýtt á rússnesku og raddir fiskanna leiknar af rússneskumælandi fólki hér á landi. Þekkt rússnesk leikkona kemur einnig til liðs við hópinn í Moskvu. Á hátíðinni munu svo þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdóttir og leikstjórinn, Þórhallur Sigurðssson halda erindi og sitja fyrir svörum um íslenskt leikhús og íslenska barnaleikhúsið. Þá mun Áslaug Jónsdóttir fjalla um verk sín.
Til hamingju með þetta góða leikhúsfólk!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.