Leikritið Saumur er eftir Anthony Neilson er nú sýnt á litla sviði Borgarleikhússins. Þetta er leikrit í anda „gakktufram af mér leikrita“ en auglýsingin segir það vera „nærgöngult og nístandi“.
Vissulega er það rétt að þetta er nærgöngult verk þar sem fylgst er með ungu pari í mjög stormasömu sambandi. Í upphafi verksins þurfa þau að taka ákvörðun um hvort þau séu tilbúin að ala upp barn saman. Leikritið fer fram og aftur í tíma og unga parið tekst á við lífið og reynir að vinna úr sínum málum.
Eftir því sem líður á verkið sér áhorfandinn að þetta er ekki svona klippt og skorið eins og virtist í fyrstu. Vandamál þeirra er kannski ekki tilvonandi barnsfæðing heldur eitthvað annað og dýpra.
Mér fannst þetta skemmtilegt ef hægt er að segja að svona alvarlegt efni sé skemmtilegt. Tímalengdin var nákvæmlega rétt og leikararnir skiluðu sínu mjög vel. Þau voru bæði sannfærandi í hlutverkum sínum sem ungt og ráðþrota fólk sem berst við djúpar tilfinningar.
Mér fannst stundum ruglandi þegar skipt var á milli tíma þar sem þau voru alltaf í sömu fötunum í sömu sviðsmyndinni en um leið var það ögrandi fyrir hugann að skilja hvað væri að gerast á hverjum tíma. Senurnar eru stuttar og í hverri senu er mikill sársauki og reiði en eftir því sem á líður verður sársaukinn reiðinni yfirsterkari og áhorfandinn skilur allt í einu út á hvað verkið gengur.
Eflaust er þetta ekki verk sem höfðar til þeirra er hneykslast auðveldlega en mér fannst þetta ganga upp og skildi mig eftir með smá súrt bragð í munninum yfir endinum. Þetta er ekki Hollywood endir heldur raunverulegt vandamál með raunverulegum endi.
Meira um verkið HÉR
Leikarar: Hjörtur Jóhann Jónsson og Vala Kristín Eiríksdóttir
Leikstjóri: Ríkharður Hjartar Magnússon.
Ríkharður útskrifaðist úr Fræði og framkvæmd við Listaháskóla Íslands vorið 2013. Saumur er fyrsta leikstjórnarverkefni hans. Verkið var upphaflega útskriftarverkefni Ríkharðs og vakti mikla athygli en verður nú sýnt í nýrri og endurbættri útgáfu.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.