Um daginn sá ég leiksýninguna Rómeó og Júlíu í uppfærslu Vesturports hjá Borgarleikhúsinu og sýningin fær toppeinkunn hjá mér.
Um leið var þetta dálítið sérstakt tilefni þar sem ég bauð sjálfri mér í leikhúsið og ákvað að fara ein með sjálfri mér. Þið single stelpur getið þetta líka! Ef enginn býður ykkur út, bara fara sjálfar. Að minnsta kosti skemmti ég mér þrælvel, hitti fullt af fólki og enginn púaði né tók eftir því sérstaklega að ég væri að dinglast þarna ein, enda leikhúsið sneisafullt.
Já það var setið í öllum sætum, alveg upp í rjáfur, mér sýndist þeir þurfa að bæta við stólum á hliðarkantinum. Orðspor sýningarinnar er greinlega gott og þegar hún byrjaði var uppfærslan svo skemmtileg að ég gleymdi sjálfri mér og fylgdist spennt með, á milli þess sem ég þurfti að hemja mig til að gráta ekki allt meik-up af mér í fyndnustu atriðunum. Eiginlega man ég sjaldan eftir því að hafa hlegið svona mikið …. og það í leikhúsi sem ég hélt að væri svo grafalvarlegt (!!)
Í sýningunni leika ungir og flottir leikarar, hún er virkilegt augnakonfekt hvað leik og gervi snertir. Það flottasta var að sjá hversu kattliðugir leikararnir eru en sýningin fer að miklu leyti fram í loftinu og er tilkomumikið sjónarspil. Mestu vonbrigðin voru líklega sú að horfa upp á sætasta leikarann bregða sér í hlutverk homma – honum fórst það svo vel úr hendi að sú einhleypa gat nærri grátið úr svekkelsi en auðvitað er þetta bara leikrit, bara svona skrambi gott !
Ergo, það er skyldumæting á Rómeó og Júlíu fyrir allar konur og karla sem kunna að meta góðan leik, gott grín, flotta kroppa og hrikalega sæta “homma”; -)
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.