Það getur verið afar erfitt að takast á við breytingar eða horfast í augu við staðreyndir. Þessi pjattrófa hér hefur oftar en ekki þurft að gera hvoru tveggja.
Um daginn, þegar ég fór í leikhús horfðist ég í augu við sjálfa mig, og þegar það gerðist sá ég skýrar þær breytingar sem eiga sér stað á högum mínum.
Sumum finnst eflaust furðulegt að upplifa slíkt í gegnum leikhúsmiðilinn og vera má að svo sé en fyrir mér er þetta ósköp eðlilegt. Það fer eftir því hverskonar tegund af sýningu maður er á hvernig upplifunin verður. Sum verk hrífa áhorfandann með, hálfpartinn deyfa hann og leyfa honum að gleyma stað og stund – önnur verk vekja áhorfandann til umhugsunar, kveikja á gagnrýnandanum og hvort sem þau hrífa áhorfandann með eða ekki, þá fær hann ekkert tóm til að gleyma sér!
En það sem ég hef áður sagt hér og þeir sem þekkja orðið eitthvað til skrifa minna vita, er að oftast nýt ég þess betur að vera á óþægilegri sýningu og þá glaðvakandi heldur en einhverri vitleysu sem vekur mann lítið sem ekkert til umhugsunar, já sem sagt betra er að vera vakin heldur en svæfður – í leikhúsi allavega!
Það má lýsa því þannig að sýning nái helst tökum á mér ef mér finnst ég vera hálfpartin samsek um eitthvað þegar ég geng út.
Öll tabú tekin fyrir
Þessi sýning sem vakti mig og olli andvöku (beinlínis) var nemendaleikhússýningin Óraland. Þessi sýning var beinskeytt og óþægileg (ekki of óþægileg samt!) en einnig skemmtileg og hreinskilin… Þarna var allt tekið fyrir sem gæti kallast tabú og margt úr umræðu samtímans sem sumir kalla dægurþras en aðrir mikilvæga orðræðu.
Þarna kom fram gagnrýni og var sýnt fram á hallærisleika í veikri umræðu samtímans. Samkynhneigð, feminismi, hégómi, fjölmiðlafár, kynórar, drápsórar og annarskonar órar… allt þetta og fleira kom fyrir, um leið og bent var á hvernig það er að vera bara manneskja.
Leikstjórar og upprennandi leikarar komu þarna saman og gerðu frábæra útskriftarsýningu. Sviðsetningin var líka flott. Sviðið var fyrir miðju og áhorfendur sátu sitthvorum meginn við það (þetta virðist nokkuð vinsæl uppsetning á sýningum sem eiga að “vekja”). Það var mynd af áttavita á gólfinu sem sýndi reyndar ekki áttir heldur stikkorð eins og; gremju, þakklæti, “ég um mig” og þessháttar.
Verkið er sett upp eins og spunavél (enda frumsamið) og líklegt að í spunanum hafi verið notast við stikkorðin. Stundum var búið að þróa atriðin vel og þau gátu verið mjög flott en stundum leið manni eins og maður væri staddur á spunaæfingu, sem var ekkert endilega neitt slæmt, heldur vissi maður að þarna væri hrár efniviður og beinharður sannleikur á ferðinni.
Æj, já var ég ekki byrjuð á að segja frá því hvernig ég var vakin til umhugsunar og varð andvaka og horfðist í augu við sjálfa mig? Held ég sleppi því að segja frá því hér enda of persónulegt!!
Ég ætla heldur ekkert að hafa fleiri orð um sýninguna því mér finnst að fólk eigi bara að drífa sig. Þetta er sýning sem þrátt fyrir að vera frekar löng er fljót að líða – því hún er góð!
Leikarar framtíðarinnar eru: Hjörtur Jóhann Jónsson (alveg frábær), Kolbeinn Arnbjörnsson (líka frábær), Olga Sonja Thorarensen (rosa flott leikkona), Ólöf Haraldsdóttir (líka flott leikkona), Pétur Ámannson (kom á óvart), Saga Garðarsdóttir (kom ekki á óvart – en það er hrósið), Sara Margrét Nordahl (fylgist vel með henni), Sigurður Þór Óskarsson (fylgist vel með honum), Snorri Engilbertsson (orðinn svaka frægur) og Tinna Sverrisdóttir (einstök) Leikstjórar eru svo Una Þorleifsdóttir og Jón Atli Jónasson (snillar!).
Miðapantanir á sýninguna Óraland fara fram í síma; 895-6994 eða á http://midi.is/leikhus/1/6972/
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.