Ég fór á Macbeth í uppsetningu Þjóðleikhússins um helgina sem leið. Það er skemmst frá því að segja að hér er um að ræða magnað listaverk!
Í fyrsta lagi er verkið eitt áhrifaríkasta leikrit fyrr og síðar og af mörgum talið vera það besta sem Shakespeare skrifaði. Texti verksins er margslunginn og þýðingarmikill og innihald hans hefur margar skýrskotanir enn í dag. Þess vegna er talað um að verkið sé klassískt og síungt.
Macbeth í uppsetningu Þjóðleikhússins er nútímalegt og með tilraunakenndari sýningum sem ég hef séð þar en leikstjóri verksins er frá Ástralíu og heitir Benedikt Andrews. Hann er einn af eftirsóttustu leikstjórum þar ytra en hann leikstýrði einnig Lé konungi í Þjóðleikhúsinu árið 2011.
Flogaveikir fari varlega
Það má segja að sýn Andrews hafi verið skýr og finnst mér hann skila verkinu vel til áhorfandans. Hann færir verkið í nútímalegan búning með hjálp ýmissa miðla, s.s. video og ljósa ásamt því að nota hljóðheim (m.a. voru notuð lög beint úr samtímanum) og lýsingu óspart til þess að skila hughrifum textans betur áfram.
Reyndar ber að vara flogveika og fólk með alvarlegan athyglisbrest við sýningunni en í byrjun verksins eru leifturljós óspart notuð og athyglin þarf að vera á rímuðum textanum um leið. Áhorfenda kann því að lítast illa á blikuna í byrjun. Tómt kassalaga svið með halógen ljósaperum í loftinu, sem minnir á geðspítala, leifturljós og þungur texti… en senn dettur áhorfandinn inn í spennandi sögu og afar áhrifaríkt sjónarspil.
Valdaþorsti og eigingjarnar hvatir
Í mjög stuttu máli fjallar leikritið um herforingjann Macbeth sem vinnur fyrir göfugan konung Skotlands. Þrjár nornir vitja Macbeths og Bankó félaga hans og færa þeim spádóm þess eðlis að Macbeth muni verða konungur og að Bankó muni verða faðir margra konunga.
Macbeth sem er mikil stríðshetja býst við því að spádómurinn uppfyllist en þá útnefnir konungur son sinn sem veldur því að Macbeth sér ekki fram á að ná krúnunni. Macbeth sendir konu sinni Lafði Macbeth bréf um sýn þeirra félaga og hún afræður að Macbeth muni þurfa að ráða konung af dögum til þess að uppfylla spádóminn.
Áhorfendur sjá vel að hér eru ekki örlög að verki – því val Macbeths og Lafðinnar er mjög áberandi: þau ákveða þetta í sameiningu og nota spádóminn fremur sem drífandi afl til þess að svala valdaþorsta sínum og eigingjörnum hvötum, þ.e. sem afsökun til þess að fremja illverkið. Macbeth fremur illverkið og þá hefst sá kafli verksins sem tekst á um afleiðingar verknaðarins á Macbeth og Lafðina – hvernig geðveikin sem tók sér bólfestu um leið og hugmyndin að morði fyrst festi rætur og hvernig hið illa innra með Macbeth og Lafðinni elur af sér síaukna erfiðleika í lífi þeirra.
Blóðsúthellingar í orðsins fyllstu merkingu
Nornaspádómurinn í byrjun verksins kemur því fram hér sem mikil bölvun sem aðeins heldur áfram að vinda upp á sig. Hápunktur verksins er svo þegar Macbeth sér draug félaga síns Bankós í veislu – en sú sena er verulega áhrifarík…
Verkið endar með miklum blóðsúthellingum en Macbeth heldur áfram að reiða sig á “vísdóm” nornanna þriggja.
Stríð hefur brotist út þar sem ráða á Macbeth að dauðum, Englendingar nálgast og það þrengir sífellt meir að og ógæfan vindur enn upp á sig.
Leikmynd, hljóðheimur, ljós og búningar hjálpa til við að gera uppsetninguna nútímalega og virkilega skemmtilega fyrir augað og má segja að Börkur Jónsson leikmyndahönnuður eigi mikið í sýningunni.
Hér er tilraunakenndur stíll á ferð og þess má geta að m.a. eru notaðir 35 lítarar af blóði!
Um er að ræða fjöldann af góðum lausnum í sýningunni og verkið flæðir eðlilega fram. Sýningin er 2 tímar á lengd og ekkert hlé. Áhorfenda getur kviðið slíku því margir eru vanir að fá hlé, sér í lagi á þungu verki, en í þessu tilfelli má segja að það sé gjöf til áhorfandans að svo sé ekki.
Sá heimur sem áhorfandi er laðaður inn í er þess eðlis að sé hann rofinn með “raunveruleikatjekki” gæti verið farið á mis við mikið. Hér er um að ræða dáleiðandi heim og texta sem þarfnast þess að vera upplifaður og áhorfandi þarfnast þess að vera hrifinn inn í líkt og Macbeth sjálfur var hrifinn inn í annan veruleika, veruleika firringar.
Það er mikið að fá út úr sýningu Macbeths í Þjóðleikhúsinu og enginn áhorfandi fer út ósnortinn hvort sem hann er yfir höfuð hrifinn af klassíksum verkum á borð við þetta eður ei, því upfærslan nær inn í nútímann og til áhorfandans. Leikarar skila hlutverkum sínum með sóma og eru raunar þegar að er gáð hver og einn sem sniðinn í hvert hlutverk um sig. Verkið er í senn andlegt og veraldlegt, uppfullt af skírskotunum og uppsetning verksins nær því fram.
Ekki er hægt að fara nánar í saumanna í stuttlegum pistli en talandi um spádóma: Ég spái því nú í upphafi árs að sýningin Macbeth í uppsetningu Þjóðleikhússins (sem var reyndar frumsýnd um jólin) muni raka að sér verðlaunum og verða talin ein sú besta á þessu leikári!
Aðstandendur sýningarinnar eru sem hér segir:
Leikstjóri: Benedikt Andrews – Aðstoðarleikstjóri: Stefán Hallur Stefánsson – Leikmynd: Börkur Jónsson – Búningar: Helga I. Stefánsdóttir – Tónlist: Oren Ambarchi – Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Oren Ambarchi – Lýsing: Halldór Örn Óskarsson – Þýðing: Þórarinn Eldjárn – Dramarúrg: Shelly Laumann – Leikarar: Arnar jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Björn Thors, Friðrik Friðriksson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hilmir Jensson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálmi Gestson, Saga Garðarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.