Leikhús listamanna er forvitnilegt fyrirbæri sem skaut upp kollinum síðasta vetur í Þjóðleikhúskjallaranum. Þetta sérstaka leikhús sem hóf upphaflega starfsemi sína í Klink og Bank árið 2004 er aðallega skipað myndlistarmönnum en fólk úr öðrum listgreinum svo sem dansarar og skáld svo eitthvað sé nefnt hafa verið hluti þessarar skemmtilegu flóru listamanna frá upphafi.
Leikhúsið hefur nú öðlast nánast goðsagnakenndan sess í hugum þeirra listunnenda sem hafa kynnst því.
Hópurinn hóf semsagt starfsemi sína árið 2004 og á þessum kvöldum fylltist Klink og Bank af gestum sem urðu vitni að einstökum verkum sem eingöngu voru flutt einu sinni. Léku listamennirnir í verkum hvors annars og er engin breyting á því fyrirkomulagi.
Kynnirinn er hinn stórskemmtilegi Ármann Reynisson skáld og lífskúnstner og á hann stóran þátt í hinni ótrúlegu stemningu sem jafnan fylgir þessum uppákomum.
Þeir sem koma fram með leikhúsinu eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Ástrós Elísdóttir, Ingibjörg Magnadóttir, Kristín Anna Valtýsdótti (Kría Brekkan), Margrét Bjarnadóttir, Ragnar Bragason, Ragnar Kjartansson, Rakel McMahon, Saga Sigurðardóttir, Símon Birgisson, Snorri Ásmundsson, og gestir.