Nýlega var frumsýndur nýr kabarett í Þjóðleikhúskjallaranum. Sýningin fjallar um söng- og leikkonuna Judy Garland og segir frá lífshlaupi hennar ásamt því sem frægustu lög hennar eru tekin.
Það er leikkonan Lára Sveinsdóttir sem fer með hlutverkið auk þess sem hún semur handritið.
Sýningin er sett upp sem tónleikar en inn á milli eru sögur úr ævi leikonunnar sagðar eða leiknar af Láru einni. Mér fannst Lára standa sig mjög vel í hlutverki sínu sem leikkona en ekki síður sem söngkona.
Ég held að bæði aðdáendur Judy Garland sem og þeir sem eru henni minna kunnugir myndu hafa gaman af sýningunni. Ég sjálf vissi ekki svo mikið um lífshlaup hennar nema í mjög grófum dráttum. Mér fannst ég fá innsýn inn í líf hennar og starf og betri skilning á sumum laganna sem eru samin á vissum tímabilum í lífi hennar.
Judy lifði sannarlega erlisömu lífi og það er gaman að fá söguna til sín í formi leikhústexta.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Cv_Ryrj6x4g[/youtube]Lára nýtur stuðnings Djasshljómsveitar Úlfs Eldjárns sem kemur mjög vel út með henni á sviðinu og spilar vel. Leikstjórn er svo í höndum Charlotte Böving og tel ég hana hafa náð að stýra vel, enda eru ekki dauðir punktar, ryþminn í sýningunni er góður og sýningin er bara rétt rúmlega klukkutíma löng sem mér fannst mjög passlegt.
Það er gaman að sitja við borð og geta drukkið kaffi eða fengið sér rauðvínsglas á meðan maður nýtur. Ég mæli eindregið með kvöldstund í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem maður skyggnist inn í líf Judy Garland og nýtur góðra tóna.
Ekki missa af þessu!
Sýningar eru 21., 22. og 30.október klukkan 22 :00 og hægt er að næla sér í miða á midasala@leikhusid.is
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.