Ég skrapp í Gamla Bíó um daginn og sá Hrekkjusvínin. Sýningin er söngleikur byggður á plötu Hrekkjusvínanna, Lög unga fólksins frá árinu 1977 og er mikil nostalgía fyrir þá sem upplifðu þessa tíma.
Söngleikurinn fjallar um frekar misheppnaðan viðskiptamann sem kemur sér í hverja klemmuna á fætur annarri. Það má því segja að efniviðurinn eigi vel við í dag og má hlæja að kjánaskapnum.
Það er gaman að koma í Gamla Bíó sem er mjög fallegt hús. Eins og margir vita var einmitt bíó í húsinu áður en því var breytt í Íslensku Óperuna, en nú hýsir það leikhús. Við innganginn fá áhorfendur spjald í hendurnar sem þeir þurfa að nota á sýningunni við að greiða atkvæði. Þrátt fyrir það er alltaf veggur á milli áhorfenda og leikara svo að þeir sem eru ekki hrifnir af því að vera þáttakendur í sýningum þurfa ekkert að óttast. Þetta minnir um margt á allar keppnirnar sem eru í sjónvarpi í dag, s.s. X-Faktor, Idol o.fl.
Leikurinn gerist að mestu handan móðunnar miklu. Það sem áhorfendur fá að kjósa um er hvort Jóhann, aðalsöguhetjan eigi að fara „upp“ eða „niður“. Við fáum að sjá atriði úr lífi hans og sögunni vindur fram út frá því. Sagan fjallar að miklu leyti um iðrun og er fjölskyldudrama á léttu nótunum.
Þetta er ekta fjölskyldusýning, bæði fyrir börn og fullorðna. Hún byrjar vel og lögin eru skemmtileg. Það eru dansatriði í sýningunni sem er gaman að horfa á en ég hefði viljað sjá þau unninn meira áfram. Fyrir hlé var mér aðeins farið að finnast lopinn svolítið teygður en eftir hlé tók sýningin aftur flugið.
Ég myndi mæla með þessari sýningu fyrir alla þá sem höfðu gaman af Lögum unga fólskins. Ég held líka að það væri kjörið fyrir ömmur og afa að fara með ungviðið á Hrekkjusvínin og skemmta sér saman. Það er María Reyndal sem leikstýrir, Tinna Hrafnsdóttir og Sveinn Geirsson framleiða og leika, auk þess sem Valgeir Guðjónsson kemur við sögu.
Tilboð stendur á aðra sýningu Hrekkjusvínanna laugardaginn 22. október og er miðaverðið aðeins 2.990.kr.
Hægt er að fá miða á www. gamlabio.is
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.