Á föstudagskvöld skellti ég mér á frumsýningu á leikverkinu Hjónabandssælu með Ladda og Eddu Björgvins í aðalhlutverkum.
Verkið segir frá Hinrik og Lísu, frekar ryðguðu pari sem fer með kynlífsbók yfir helgi á hótel HH í þeim tilgangi að lífga upp á sambandið sem hefur staðið í um 25 ár.
Þetta gengur allt frekar brösulega hjá þeim. Kannski vegna þess að væntingarnar eru mjög misjafnar. Hann gerir ekki sömu kröfur og hún til stemmningarinnar og fyrir vikið verður Lísa súr. Eftir því sem líður á verkið þróast þetta svo allt til betri vegar og endirinn er góður – svona eins og við var að búast.
Þar sem Laddi og Edda eru í aðalhlutverkum í þessu leikriti eru eflaust margir sem reikna með því að hlægja út í eitt og vissulega var hlegið en áherslan í verkinu er alveg jafn mikil á samskipti kynjanna og hvernig það er að hafa verið í löngu sambandi og á grín og glens.
Laddi fannst mér algjörlega frábær í sínu hlutverki sem ‘anally retentive’ verkfræðingurinn Hinrik. Ég hugsa að flestir þekki eins og einn Hinrik sem hringir í hótelstjórann til að nöldra yfir lélegum handklæðum. Ótrúlega góð týpa og flottur leikur. Laddi er snilldar leikari og ég væri til í að sjá hann í fleiri ‘mannlegum’ hlutverkum. Ef Woddy Allen gerði mynd með Íslendingum á Íslandi myndi hann eflaust ráða Ladda í eitthvað hlutverk.
Edda Björgvins var í flottu formi og skemmtileg að vanda en á köflum fannst mér hún fara heldur geyst í leiknum ef svo má að orði komast. Frumsýningarspenna kannski? Karakterinn Lísa á sér samhljóm hjá ótal konum og ég er viss um að mörg pör í salnum sáu sig í þeim Hinrik og Lísu og þeirra hnýtingum og kýtingum.
Sviðsmyndin var vönduð og flott og enn betra að vita til þess að flotta hægindastólinn er hægt að kaupa hjá ILVU. Hvenær fer maður í leikhús og veit að það er eignast hluti úr leikmyndinni? Komin tími til!
Svo fannst mér frábært að koma í Gamla Bíó. Þetta hús er svo brakandi og lifandi. Með fullt af sál og karakter. Það er ekki nóg af svona húsum í borginni og um að gera að nota þau þannig að við sem í henni búum höfum aðgang að stemmningunni. Reyndar vona ég að húsráðendur endurnýi eða endurbæti sætin við tækifæri en mig grunar að íslendingar hafi stækkað síðan þeim var fyrst komið fyrir í húsinu. Þetta er samt aukaatriði (þó Hinrik þætti það kannski ekki)…
…Skemmtilegt leikrit fær mann til að gleyma sætinu og Hjónabandssæla er skemmtilegt leikrit.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.