Um næstu helgi verður frumsýnt leikritið hjónabandssæla í Gamla Bíói en það eru gömlu brýnin Laddi og Edda Björgvinsdóttir sem verða þar í aðalhlutverkum.
Það eru ár og dagar síðan þessir fyndnu íslendingar hafa unnið saman en margir muna eftir þeim úr myndinni um Stellu í Orlofi. Það má því búast við góðri aðsókn á verkið… Pjattrófurnar ætla a.m.k. allar að skella sér á generalprufu.
Hjónabandssæla fjallar um Hinrik og Lísu, miðaldra hjón sem hafa verið gift í tuttugu og fimm ár…
“Ástareldurinn hefur kulnað, aukakílóin virðast komin til að vera á meðan hárin hverfa eða birtast á nýjum og óspennandi stöðum. Kynlífið er komið á endastöð en til að fá hjólin til að snúast aftur sannfærir Lísa Hinrik um að eyða með sér helgi á hóteli til að blása nýjum glæðum í hjónabandið. En þegar Lísa fer að draga Hinrik á tálar er eitt og annað sem dregst fram í dagsljósið og um leið og fötunum fækkar hverfa hömlurnar og átökin magnast,” segir í texta frá Leikhúsmógúlnum sem nýlega tók við rekstri Gamla Bíós en Leikhúsmógúllinn gerði einmitt garðinn frægan á sínum tíma með Hellisbúanum.
Nú er ekki leitað langt út fyrir þann ramma með grínleikriti um samskipti kynjanna. Enda fátt fyndnara þegar allt kemur til alls. Michelle Riml frá Kanada skrifaði verkið en þar hefur það gengið fyrir fullu húsi í átta ár.
Óskar Eiríksson framleiðandi sýningarinnar setti það upp í LA fyrir tveimur árum síðan og það gekk glimrandi vel en Leikhúsmógúllinn stefnir á að setja verkið upp í Þýskalandi og Sviss á næsta ári.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.