Laugardaginn 5. apríl frumsýnir Þjóðleikhúsið leikritið Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry í leikgerð og leikstjórn Stefáns Halls Stefánssonar en verkið verður sýnt í Kúlunni.
Litli prinsinn er eitt ástsælasta bókmenntaverk síðustu aldar, en bókin kom fyrst úr árið 1943 í Frakklandi. Síðan þá hefur Litli prinsinn farið sigurför um heiminn en verkið hefur verið þýtt á yfir 250 tungumál. Litli prinsinn er ein af mest seldu skáldsögum í heimi en árlega seljast allt að tvær milljónir eintaka af verkinu um víða veröld.
Flugmaður nauðlendir í Sahara eypimörkinni og rekst þar á lítinn dreng, prins frá öðrum hnetti, sem segir honum frá heimkynnum sínum úti í geimnum og ferðalagi sínu á milli hinna ýmsu hnatta himinhvolfsins og kynnum sínum af íbúum þeirra. Frásagnir þessa litla drengs varpa nýju og fersku ljósi á hegðun og hugsanagang fullorðna fólksins.
Litli prinsinn er ljóðræn og heimsspekileg saga sem talar í senn til barna og fullorðina. Á yfirborðinu er verkið fallegt ævintýri en þegar dýpra er skyggnst er það fullt af dýrmætri visku.
Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikur litla prinsinn og Snorri Engilbertsson leikur flugmanninn. Auk þeira leikur Edda Arnljótsdóttir í sýningunni. Höfundur leikgerðar og leikstjóri er Stefán Hallur Stefánsson. Högni Sigþórsson er höfundur leikmyndar, Laila Arge er höfundur búninga, lýsing er hönnuð af Magnúsi Arnari Sigurðarsyni og tónlist er eftir Völu Gestsdóttur. Þýðingin er eftir Þórarinn Björnsson.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.