Í gærkvöldi fór ég í Þjóðleikhúsið að sjá nýjasta verk Braga Ólafssonar, Maður mér að skapi. Ótrúlega gaman að vera aftur komin í leikhúsið eftir sumarfrí og eftirvæntingin nokkur enda alltaf spennandi að sjá ný innlend verk.
Í þessu brakandi ferska verki segir frá fræðimanninum Guðgeiri Vagni Guðbrandssyni sem er leikin af Eggerti Þorleifs. Hann er að klára bók sem er samansafn af tilvitnunum og honum til aðstoðar við þetta er hinn ungi og skeleggi Daði sem er einkar vel leikin af Þorleifi Einarssyni.
Sagan gerist öll inni á heimili Guðgeirs sem er hreinlegt og fínt enda í góðum höndum hreingerningarkonu (Ólafía Hrönn) sem er nýbúin að ráða sig til þeirra stafa þegar sagan hefst.
Vinur Guðgeirs, Klemens Magnason, fyrrverandi heilbrigðisráðherra (leikin af Pálma Gests), mætir í heimsókn til Guðgeirs en sá hyggur á endurkomu í stjórnmálin eftir að hafa neyðst til að segja af sér embætti og á Daði að sjá um ræðuna. Klemens er drykkfeldur og vúlgar og þegar þeir Guðgeir komast að því að Agnar, stóri bróðir hreingerningarkonunnar (Þorsteinn Bachmann) er maður sem tengist leyndarmáli úr fortíð þeirra byrja kekkir að myndast í grautnum.
Er súputeningurinn nægilega kraftmikill til að bragð verði af þessu verki þegar við Gísli sitjum tannlaus og utanvið okkur á Grund og Hannes dansar brasilíska rúmbu handan við móðuna miklu?
Mér fannst verkið fara mjög vel af stað. Eggert er svo skemmtilegur leikari og hinn spjátrungslegi Guðgeir góð týpa. Einhleypur miðaldra maður sem drekkur púrtvín klæddur silkislopp. Klassískt.
Hver er maðurinn?
Fljótlega fóru þó að renna á mig tvær grímur, – eða svona um það leiti sem ég áttaði mig á því að fyrirmynd Guðgeirs er enginn annar en Hannes Hólmsteinn Gissurarson (með dassi af Ármanni Reynis) og hinn skeleggi Daði á mjög augljóslega að vera Gísli Marteinn. Þá hugsaði ég; ‘Nújæja, er þetta revía eða mjög langur Spaugstofuskets’ enda á ég því ekki að venjast að gert sé gys að samtímafólki okkar í leikhúsi þar sem slíkt hefur alltaf verið gert í revíum Spaugstofunnar og áramótaskaupsins. Því næst fór ég eðlilega að máta Klemens við þjóðþekkta karaktera en sá ekki betur að þarna væri bara kominn skálduð persóna, án beinnar fyrirmyndar en búin hverskyns löstum sem þykja hvorki prýða pólitíkusa né aðra. Svo kom hlé.
Í hlénu töluðu allir um Hannes og Gísla, Klemens var mátaður og hlegið var að nokkrum frösum. Vatn og vín var teygað. Horft í kringum sig… Svo hélt sýningin áfram.
Ég hugsaði um innihaldið: Burtséð frá því hverjum verið er að gera grín að. Mun þetta verk þykja sterkt eftir 40 ár?
Er súputeningurinn nægilega kraftmikill til að bragð verði af þessu verki þegar við Gísli sitjum tannlaus og utanvið okkur á Grund og Hannes dansar brasilíska rúmbu handan við móðuna miklu?
Verða karakterum þeirra kannski gefin einkenni manna eða kvenna sem verða þekkt hjá samtímafólki árið 2053 eða verða Hannes og Gísli enn fyrirmyndirnar þó flestir sem kannast við þá verði ýmist undir torfu eða elliærir? Ég spurði mig líka hvort mér þætti verkið sniðugra eða verra, hefði ég tekið mér stöðu í því kúltúrella kaldastríði sem hefur staðið milli hægri og vinstri afla landsins síðan snemma á síðustu öld. Ég veit það ekki.
Ég veit hinsvegar að mér þótti leikmyndin vel heppnuð, leikararnir stórskemmtilegir, (sérstaklega Kristbjörg Kjeld) og margir frasar mjög fyndnir. “Ekkert er eins ófrjálst og fuglinn” eða “Ekkert er eins sorglegt og edrú manneskja”.
Mig grunar líka að margir eigi eftir að sjá verkið, þó ekki sé nema fyrir forvitnis sakir því við búum í svo agnarsmáu samfélagi… og svo er spurning hvort vinirnir Hannes og Gísli skelli sér í leikhúsið? Kannski ekki?
Fyrri leikrit Braga Ólafssonar, Hænuungarnir (Þjóðleikhúsið, 2010) og Belgíska Kongó (LR, 2004) hlutu afbragðs viðtökur. Bæði verkin voru tilnefnd til Grímunnar, auk þess sem Bragi var tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna fyrir Hænuungana. Smelltu HÉR til að lesa meira og kaupa miða.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.