Söngleikurinn Mamma Mia í Borgarleikhúsinu er sannkölluð leikhúsveisla. Þar smellur allt saman. Leikararnir eru frábærir, ljósasjóvið og sviðsmyndin, búningarnir glæsilegir og gleðin ólgar í salnum.
Ég fór á fyrstu sýningu fyrir helgi, sat með bros á vör allan tímann, klappaði stundum með og raulaði í huganum, vantaði bara að geta skellt mér með og sungið hástöfum. Sleppa sér bara alveg. Dóttir mín 10 ára sá sýninguna líka og í hvert skipti sem ég gaut á hana augunum sá ég bara risabros enda hvernig er annað hægt?
Jóhanna Vigdís sem Donna er frábær. Angistin þegar hún fattar að þeir eru mættir allir þrír á eyjuna hennar og gleðin með vinkonunum sem reyna að kæta hana. Sophie er yndislega frábær, sveiflast um á sviðinu eins og fimleikastjarna, með teinréttar ristar og allan pakkann. Vinkonur hennar eru ekta skellibjöllur, alveg óborganlegar. Tanya hin þrífráskilda og rithöfundurinn Rosie þóttu mér æði.
Feðurnir eru líka frábærir, Helgi Björnsson mátulega föðurlegur við dótturina sem hann á kannski og kannski ekki og hann syngur sko mikið betur en Pierce Brosnan. Halldór í hlutverki Bills er alveg nógu flóttalegur til að smella í hlutverkið og mér fannst algjörlega óborganlegt atriðið milli hans og Rosie, Taktu séns á mér. Vá hvað ég hló þegar hann djöflaðist yfir bekki og stóla til að forðast hana. Harry karlinn einstaklega yfirvegaður alltaf en á sín augnablik sem flest fela í sér smá headbanging.
Abba á Íslensku – það verður að gefa út disk!
Síðan eru það lögin, sjálf Abba lögin! Þýðingin á þeim, hvað er í gangi? Af hverju var ekki löngu búið að þýða þetta? Ég hafði smá áhyggjur fyrirfram, því þetta eru jú lög sem maður þekkir eins og lófann á sér en áhyggjur mínar gufuðu strax upp. Þýðingin er bara frábær eins og annað í leikritinu. Spurning hvort það komi ekki út diskur? Það verður að koma út diskur?!
Pönkarinn breyttist í diskógellu
Sviðsmyndin er mjög vel heppnuð, fullt af ljósum og skærum litum og gleði. Ég held að það sé á hreinu að það fer enginn í fýlu á þessari sýningu. Mig langar strax að fara aftur, það er svo gott að líða svona vel. Eigum við nokkuð að tala um búningana? Glimmer og gleði? Þetta er svo rosalega, ótrúlega flott og skemmtilegt að gamli pönkarinn í mér breyttist í diskógellu á einu augnabliki.
Mér fannst heildarmyndin alveg ótrúlega skemmtilegt. Fólk á hótelinu að rífast eða skemmta sér, gríska konan alltaf að snúast eitthvað. Allir dansararnir, mikið svakalega eigum við mikið af flottu ungu fólki, ég var bara í gleðivímu og er enn. Tónlistarmennirnir römmuðu þetta síðan allt saman inn með lifandi og hröðu undirspili.
Tíu stjörnu sýning það er á hreinu, nei er fimm mest? Jæja segjum þá fimm og við förum aftur og þá eru það orðnar tíu!
[usr 5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.