Ég fór í Borgarleikhúsið í gærkvöldi og sá nýtt íslenskt verk sem heitir Gaukar, en það er eftir Huldar Breiðfjörð, – hans fyrsta verk fyrir leikhúsið.
Sagan segir frá tveimur fráskildum mönnum sem hittast á hóteli í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík. Þeim Tómasi, sem býr í höfuðborginni, og Gunnlaugi sem býr á vestfjörðum. Gunnlaugur vill losna við gæludýrið sitt, páfagauk, og Tómas hefur áhuga á að fá sér gæludýr. Vantar félagsskap.
Gunnlaugi er umhugað um að páfagaukurinn fái góðan eiganda og yfirheyrir því Tómas um fjölskylduhagi og aðstæður sem þróast síðar út í það að mennirnir tveir fara á ‘trúnó.
Smátt og smátt komast þeir að því að þeir eiga mikið meira sameiginlegt en báða grunaði og það er sérlega krúttlegt að horfa upp á þá ‘tengja’ þegar hinn ofurmeðvirki Tómas og klassíski íslenski ‘tröllkarlinn’ hann Gunnlaugur ræða konurnar í lífi sínu með spaugilegum hætti.
Þetta er í annað sinn sem ég sé þá Jóhann Sigurðarson og Hilmar Guðjónsson saman á sviði en áður var það í verkinu Rautt sem jafnframt var sýnt í Borgarleikhúsinu við miklar vinsældir enda meiriháttar gott verk.
Það er nefninlega frábært að sjá þessa tvo menn saman á sviði. Líkamlega gætu þeir ekki verið ólíkari og bara þessar andstæður, hvað þeir eru ólíkir, er í sjálfu sér drama.
Textinn í verkinu fannst mér góður og bæði Jóhann og Hjálmar skila hlutverkum sínum vel en mér fannst Jóhann gersamlega frábær (eins og oftast) sem lokaði vestfirðingurinn Gunnlaugur.
Þetta eru mjög sannfærandi karakterar sem glíma við vandamál sem eflaust margir karlmenn kannast við og það var frábært að fylgjast með samtölum þeirra, sitjandi hlið við hlið á rúmstokki meðan skugginn af búri páfagauksins rammaði báða inn á mjög ljóðrænan máta. Enda báðir hálf fjötraðir af vanhæfni sinni til að eiga við eigið tilfinningalíf. Hálfgerðir gaukar.
Á margan hátt minnti verkið mig á það sem komið hefur frá breska leikstjóranum Mike Leigh. Hlýjan og mennskan svo áberandi og húmorinn með í annarri hverri setningu enda skellihló salurinn meira eða minna allann tímann.
Ég get heilshugar mælt með því þú skellir þér á þetta verk og ef þú ert að vestan, eða þekkir einhvern að vestan, þá er það einfaldlega skylda þín að fara. Ég lofa að þú munt hlægja, flissa og tengja.
Til hamingju Huldar og félagar. Vel gert!
Höfundur: Huldar Breiðfjörð – Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson – Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir – Lýsing: Þórður Orri Pétursson – Tónlist: Úlfur Eldjárn – Hljóð: Baldvin Magnússon – Leikarar: Jóhann Sigurðarson og Hilmar Guðjónsson
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.