Í Þjóðleikhúsinu má nú sjá verkið Eldraunin eftir Arthur Miller en það var frumflutt í leikhúsi á því herrans ári 1953 og hefur æ síðan verið talið með bestu leikverkum síðustu, – og væntanlega þessarar aldar.
Eldraunin, eða The Crucibile eins og verkið heitir á frummálinu, er byggt á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað í þorpinu Salem í Massachusetts árið 1692.
Nokkrar ungar stelpur eru ávíttar fyrir að vera með nornatilburði þar sem þær dansa naktar úti í skógi en þær snúa vörn í sókn og koma sökinni yfir á aðra þorpsbúa sem þeim af einhverjum ástæðum er í nöp við. Bæði konur og karla, fólk á öllum aldri. Forsprakkinn, hin unga og fagra Abigail, leggur sérlega áherslu á að ná sér niður á hinn harðgifta John Proctor (Hilmir Snær), en hún ann honum hugástum og kann illa við höfnun.
Upp kom mikill múgæsingur í þorpinu í kjölfar þessa og afleiðingin var sú að fullt af fólki var tekið af lífi en enn í dag, 320 árum síðar, eru sagðar sögur og gerðar kvikmyndir, leikverk eða aðrar túlkanir af þessum hörmungum.
Sekur þar til sakleysi er sannað
Arthur Miller skrifaði verkið á tímabili sem kennt er við McCarthy. Þá ólgaði óttinn við kommúnisma í Bandaríkjunum og grimmar yfirheyrslur voru stundaðar af yfirvöldum með tilheyrandi afleiðingum.
Ef þú varst ekki með ‘réttu’ skoðanirnar máttirðu eiga von á hræðilegum afleiðingum fyrir þig, mannorðið og fjölskyldu þína en sjálft leikskáldið var kallað fyrir ‘óamerísku’ nefndina og beðin um að benda á fólk sem hann hélt að væri kommúnískt. Auðvitað neitaði hann að taka þátt í því.
Eldraunin á okkar fámenna Íslandi
Það sem mér, og öllum sem ég hitti í hlénu fannst merkilegast, var hversu sterkur samhljómur var á milli þess sem gerðist á leiksviðinu og þess sem hefur gerst í litla samfélaginu okkar á Íslandi síðustu ár, sérstaklega eftir það sem við köllum ‘hrun’.
Mikill múgæsingur hefur átt sér stað í umræðu og stjórnmálum og auðvelt hefur verið fyrir raddsterka aðila á netinu að æsa upp úlfúð og nánast ganga frá mannorði einstaklinga með “óæskilegar” skoðanir eða lífstíl að mati ákveðinna hópa, – jafnvel þó engar sakir hafi sannast. Þannig hefur sumt fólk verið sekt þar til það sannar (eða ekki) sakleysi sitt. Og þá gildir jafnvel einu hver niðurstaðan er. Mannorðið er farið. Þetta gildir um fjölda fólks.
Líklegast er þetta mein algengara í fámennum samfélögum þó vissulega komið fyrirbærið upp í fjölbreyttum myndum, reglulega, allstaðar í heiminum. Ætli stærsti múgæsingur síðustu aldar hafi ekki verið síðari heimstyrjöldin þegar heil þjóð lagði fæð á og fyrirleit ákveðinn menningarhóp, þrátt fyrir að sá síðarnefndi hefði ekkert sér til sakar unnið.
Þetta er kannski eitthvað í mannlegu eðli? Við bíðum þess að fá höggstað á þeim sem hafa leynt eða ljóst verið ‘óæskilegir’ eða verða það skyndilega og þegar höggstaður gefst, sveiflast öll torfan sem ein samstillt vera því enginn vill láta hafna sér, enginn vill verða ‘óæskilegur’.
Þannig samþykkjum við vitleysuna, kreddurnar og kjaftæðið án umhugsunar.
Já, það má með sanni segja að þetta leikrit hafi kveikt nokkrar pælingar í kollinum en það hefði væntanlega ekki gerst ef leikverkið sjálft, umgjörðin, leikmyndin, leikararnir hefðu ekki skilað sínu afbragðs vel.
Sérlega góð fannst mér Elma Stefanía Ágústsdóttir sem Abigail Williams. Ef hún heldur sínu striki má búast við að þessi kraftmikla leikkona verði ein af dívum komandi leikára.
Friðrik Friðriksson var líka flottur sem Séra John Hayle (sá sem snerist til skynsemi) og Guðrún Gísladóttir kom skemmtilega á óvart sem þeldökki þrællinn Tituba frá Barbados. Það er jú engin blökkukona starfandi í Þjóðleikhúsinu okkar og Guðrún var sérlega sannfærandi. Aðrir leikarar stóðu sig jafnframt með prýði. Hilmir Snær, Margrét Vilhjálms, Arnar Jónsson og öll hin (the ususal suspects eins og maður segir).
Leikmyndin er módern, hrá og skemmtilega útfærð. Fínasti arkitektúr og einfaldleikinn hnitmiðaður og smekklegur. Allt spilar vel saman.
Ég tók t.d. sérstaklega eftir því að reykháfurinn úr kamínunni var hafður himinhár, hann nær næstum upp í loft. Á gólfinu er svo bara moldarflag. Þessir íbúar í Salem voru nefninlega lengst niðri á botninum. Á botni mannlegs samfélags.
Ég mæli með því að fólk drífi sig í Þjóðleikhúsið að sjá þessa klassísku og hugvekjandi sýningu. Hún hreyfir við manni, og það er alltaf gott.
[usr 4]Lestu meira um sýninguna HÉR
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.