Í gærkvöldi skellti ég mér á sýninguna Beðið eftir Godot sem kvenfélagið Garpur hefur sett upp í samvinnu við Borgarleikhúsið.
Þar sem ég útskrifaðist sjálf sem drag-kóngur árið 1997, úr sérlegum drag skóla Diane Torr, vakti þetta sérstakan áhuga minn enda eru allir leikarar sýningarinannar kvenmenn sem látast vera karlmenn. Einstaklega fyndið og hressandi fyrirbæri.
Það er leikhópurinn Pörupiltar sem sér um öll hlutverk (en þeir eiga sér sálufélaga í fjórum vel þekktum leikkonum). Pörupiltar eru ekki neitt sérlega ‘artý’ týpur (meira svona eins vinir Ólafs Ragnars úr Næturvaktinni) og það kemur á óvart hversu mikil tök þeir hafa á leikhæfileikunum. Svona miðað við aldur og fyrri störf.
Furðulegir náungar
Beðið eftir Godot fjallar um tvo vini, þá Vladimir og Estragon (Halldóra Geirharðs og Ólafía Hrönn). Þeir eru staddir í hálfgerðu tómarúmi að bíða eftir honum Godot sem lætur að sjálfssögðu ekki sjá sig. Það að hanga endalaust og bíða eftir einhverju sem gerist ekki bíður auðveldlega upp á tragískt grín og það tvöfaldast alveg þegar karlkyns karakterarnir eru leiknir af konum. Drag er í eðli sínu fyndið.
Á meðan þeir Vladimir og Estragon bíða reyna þeir ýmsar aðferðir til að hafa ofan af fyrir sér og eiga áhugaverð samtöl sem eiga undirtón í margvíslegum tilfinningum, oftar en ekki ótta, og þá sér í lagi óttanum við einmanaleika. Á vegi þeirra verða svo aðrir nokkuð furðulegir náungar. Þeir Pozzo og Lucky (Sólveig Guðmundsdóttir og Alexía Björg) sem eiga sér vægast sagt sjúkt samband og eru ekki minna hræddir við að vera einir. Einnig skottast til þeirra hrikalega síðhærðir ungir drengir með skilaboð frá Godot.
Á maður að bíða eða hengja sig?
Verkið sem slíkt er ekki saga með upphafi miðju og endi eins og við kunnum flest svo vel við. Þetta er hálfgerð mjólkurhvít sápukúla með fólki inní, fólki sem ruglar stundum fram og til baka, veit ekki hvort það er að koma eða fara, hvort það á að halda áfram að bíða – eða hengja sig bara. Þetta er á köflum stafasúpa en þó með dásamlega ágengum skilaboðum um það hvernig við, manneskjurnar, erum undarlega skrúfaðar saman. Verkið er skemmtilegt og abstrakt og sem slíku verður maður að taka því með mjög opnum huga. Þetta er bara það sem það er. Öðruvísi er ekki hægt að njóta þess sem er súrrealískt og/eða abstrakt.
Allt er þetta framreitt af einstakri hæfni listamannanna sem á köflum gerðu undirritaða hálf kjaftstopp með hæfileikum sínum. Þar fannst mér bera af þær Halldóra Geirharðs og Sólveig Guðmundsdóttir að ólöstuðum Ólafíu og Alexíu.
Út fyrir rammann
Á meðan á verkinu stóð smeygðu Pörupiltarnir sér stundum út fyrir rammann og afsökuðu eða útskýrðu hvers vegna verkið væri svona flókið. Áhorfendur voru líka hvattir til að fá sér drykk í hlénu og koma svo nauthressir inn á eftir því þá yrði verkið líka minna þungt og meira fyndið. Við vorum líka hvött til að gúggla eða wikipedia það þegar við kæmum heim.
Eftir leikritið buðu Pörupiltar upp á líflegar umræður um verkið og buðust til að taka við spurningum úr sal. Þetta var hressandi og fróðlegt og eitthvað sem gæti hreinlega verið gaman að upplifa oftar á sýningum sem fara fram í svona litlu rými þar sem nándin er mikil.
Ég skora á alla leikhúsunnendur að drífa sig að sjá verkið. Það eru ekki margar sýningar eftir. Miðinn kostar um 4000 kr og meira um sýninguna má lesa HÉR.
Svo vona ég að Pörupiltar haldi áfram að taka upp á einhverju skemmtilegu. Þeir eru svo hrikalega skemmtilegir!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.