Síðasta laugardag fór ég á nýtt verk eftir Dennis Kelly sem heitir “Eftir lokin”.
Verkinu er leikstýrt af Stefáni Halli Stefánssyni leikara. Þetta er fyrsta verkið sem hann leikstýrir einn (en áður hefur hann m.a. leikstýrt Macbeth ásamt Vigni Rafni Valþórssynni, sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu). Hann þýddi einnig verkið ásamt Lilju Nótt leikkonu.
Ég myndi segja að honum hafi tekist vel upp, enda er hann með skothelt handrit og frábæra leikara. Efniviðurinn verður því ekki betri. Hann nær líka fram í leikurunum þessu beitta sem leikritið vill skila. Þýðingin var áhugaverð að því leyti að mér fannst málfarið vera svo hversdagslegt og erfitt var að setja niður stað eða stund. Það fannst mér hjálpa verkinu.
Ekki leyfa fólki að gera þig að einhverju öðru en þú ert
Dennis Kelly er eitt vinsælasta samtímaskáld í leikritun um þessar mundir. Verk hans hafa náð mikilli útbreiðslu enda eru þau hárbeitt og taka á viðkvæmum málefnum. Þetta verk, Eftir lokin, er mjög gott.
Það segir frá tveimur einstaklingum, Markúsi og Lísu. Þau eru vinnufélagar sem eru innilokuð í sprengjubyrgi eftir kjarnorkuárás. Samskipti þeirra einkennast af togstreitu og ástandið er eldfimt. Mér fannst gaman hvernig, eftir lok sýningarinnar, gat maður velt fyrir sér titli verksins með tilliti til endaloka hennar. Verkið vekur til umhugsunnar á nokkra ólíka vegu. Ég velti fyrir mér samfélagsgerð, kynjahlutverkum, áfallastreituröskun og því hvað fær fólk til þess að gera það sem það gerir. Einnig fannst mér áhugaverður þráður í verkinu hvernig fólk berst fyrir lífi sínu á sama hátt og það berst fyrir sjálfstæði sínu. Því ef maður leyfir öðrum að gera mann að öðru en maður er, þá hefur maður tapað í lífsbaráttunni.
Hress eftir lokin
Ég veit að þetta hljómar sem nokkuð þungbærar hugleiðingar og vissulega er efniviður leikverksins Eftir lokin alvarlegur, en það var líka hægt að hlægja. Stundum hlær maður að hinu mannlega og stundum því sem manni hryllir við. Ég hef farið í leikhús á verk sem átti að skemmta mér og fundist ég vera eins og sprungin blaðra þegar ég labbaði út. Hér er mér ekki beint skemmt en er innblásin af andblæ sem ég veit ekki alveg hvernig er best að orða. Þannig verk finnast mér best.
Það er ekki hægt að komast hjá því að fjalla um verkið án þess að hrósa leikurunum sérstaklega. Lilja Nótt Þórarinsdóttir náði mér algerlega og mér fannst hún sýna stjörnuleik. Sveinn Ólafur Gunnarsson stóð sig líka mjög vel og túlkaði erfitt hlutverk á sannfærandi hátt. Þau tvö halda athygli áhorfenda í hálfa aðra klukkustund án hlés og án vandkvæða.
Það er líka vert að hrósa fyrir það hvernig hægt er að byggja sýningu svona vel upp á einfaldan máta. Það eru tveir leikarar, lítið rými og svo lýsingin og tónlistin sem halda spennustiginu akkúrat réttu allan tímann. Það er Stefán Benedikt Vilhelmsson leikari sem sér um lýsinguna og Gísli Galdur Þorgeirsson sér um tónlistina. Leikmynd og búningar eru í höndum Brynju Björnsdóttur, einföld túlkun sem skilar miklu.
Það er vert að fylgjast með þessum leikhópi, sem kallar sig SuðSuðVestur, í framtíðinni. En gott er að byrja á því að skella sér í Tjarnabíó og sjá þessa marglofuðu sýningu.
Ég vil bæta því við að það er aðeins öðruvísi stemning að koma í Tjarnarbíó en önnur leikhús. Þar er lítil kaffiaðstaða í anddyrinu þar sem myndast kaffihúsastemning (ólíkt því sem gengur og gerist í mörgum leikhúsum þar sem aðstaðan er til staðar en enginn situr). Það er tilfinning fyrir grasrótinni í Tjarnarbíói!
Nánari upplýsingar er að finna á vefnum tjarnarbio.is en miðasala fer einnig fram á midi.is.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=bgOJ1kmwako[/youtube]Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.