Um síðustu helgi fór ég, ásamt 10 ára dóttur minni Eddu, í Borgarleikhúsið að sjá Billy Elliott. Verkið er byggt á samnefndri kvikmynd sem kom fyrst á hvíta tjaldið árið 2000 en það fór fyrst á fjalirnar í London árið 2005.
Okkur fannst þetta báðum mjög góð sýning. Hún er íburðarmikil og lífleg en aldrei hafa jafn margir þáttakendur verið með í uppsetningu á leikverki í Borgarleikhúsinu. Alls 69 manns. Eða eins og segir á vef Sirkústjaldsins: „34 börn, 24 fullorðnir og 11 hljómsveitarmeðlimir.“
Tónlistin í verkinu er eftir Elton John og danshöfundur er Lee Proud. Karl Ágúst Úlfsson annaðist íslenska þýðingu og Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir verkinu en þrír ungir dansarar deila með sér aðalhlutverkinu; þeir Hjörtur Viðar Sigurðarson, Baldvin Alan Thorarensen og Sölvi Viggósson Dýrfjörð en það var Sölvi Viggóson sem lék Billy þetta kvöldið. Hér er sýnishorn úr myndinni sem kom út árið 2000. (Það eina sem ég sakaði á sýningunni var reyndar tónlistin með T-Rex. Það hefði verið æði að heyra nokkur lög með þeim í fína hljóðkerfinu í Borgó.)
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=gZVB2GpiLDs[/youtube]
Sagan segir frá Billy Elliott sem elst upp í dæmigerðum harðkjarna kolanámubæ í Bretlandi. Þegar sagan hefst eru kolanámumenn á leið í verkfall, allir brjálaðir út í Möggu Thatcher enda á verkið að gerast á árabilinu 1984-85 þegar mikil sundrung og læti ríktu í Bretlandi.
Billy elst upp með pabba sínum, bróður og kalkaðri ömmu en mamma hans er látin. Pabbann leikur Jóhann Sigurðarson og Hilmir Jensson leikur bróður hans en ömmuna leikur Sigrún Edda Björnsdóttir og fer algjörlega á kostum. Mig langar að sjá hana í einhverjum góðum grínhlutverkum á komandi misserum. Mömmu Billy, sem birtist honum stundum í draumum með hvetjandi skilaboð, leikur Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir.
Ballett frekar en box
Billy er viðkvæmur strákur sem hefur engan áhuga á „karlmennsku“ og boxi en finnur sig betur í balletttímum hjá Frú Wilkinson sem er leikin listavel af Halldóru Geirharðsdóttur. Hún stendur svo í því ströggli að koma Billy áfram í náminu en til að takast það þurfa þau Billy að mæta miklum fordómum og fóbíu karlanna í bænum sem síðar umpólast í samstöðu, samþykki og kærleika.
Þetta er skemmtileg saga og uppsetningin var frábær. Leikmyndin í góðu flæði, alltaf eitthvað að gerast á sviðinu. Hápunktur sýningarinnar fyrir okkur Eddu var að sjá senuna þar sem Billy lét sig dreyma um dansferilinn og framtíðina en þar dansaði Karl Friðrik Hjaltason með Sölva og Karl túlkaði Billy sem fullmótaðan dansara.
Við sátum á 9. bekk sem mér fannst frábær staðsetning. Þá gildir einu hvar í röðinni maður situr.
Í Billy Elliott er fjallað um verkföll og fordóma, karlmennsku og kvenleika og stráka sem fíla betur kvenleika en karlmennsku. Velja ballett frekar en box, kjóla frekar en kolanámugalla. Það er dansað, sungið og leikið, allt í þeim fallega tilgangi að kenna okkur að láta innri ljós skína og fordómana fjúka.
Ég spurði Eddu hvað hún myndi gefa verkinu margar stjörnur af fimm og hún sagði. Fjórar og hálfa. Ég er sammála og mæli með því að heilu fjölskyldurnar skelli sér saman í leikhúsið að sjá þessa flottu sýningu.
[usr 4.5]
Hér er meira um sýninguna á vef Borgarleikhússins.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=pWxgOUZtYdg[/youtube]

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.