Leikritið Bastarðar er sýnt í Borgarleikhúsinu og var frumsýnt síðasta laugardag. Um er að ræða samnorrænt samstarf á milli Borgarleikhússins og Vesturports, sænska leikhússins Malmö Stadsteater og hins danska Får302.
Verkið er skrifað af Gísla Erni Garðarsyni og bandaríska handritshöfundinum Richard LaGravenese en þeir fengu innblástur úr sögunni um Karamazov bræður eftir Dostojevski. Þeir fóru upp frá því að hugsa um manngerðir, sjálfselsku foreldra og fjölskylduform nútímans. Í verkinu vakna svo upp spurningar um brotnar fjölskyldur og hvort að fjölskyldan sé í hættu í nútíma samfélagi þar sem eiginhagsmunir ráða ríkjum.
Verkið fjallar um fjölskyldufaðirinn Magnús sem er vægast sagt vondur pabbi. Hann nýtur þess að pína börnin sín og láta þeim líða illa. Hann segir þeim öllum að hann hafi ekkert viljað með þau hafa frá upphafi, að mæður þeirra hafi allar verið ljótar en ríkar og að eina ástæða þess að hann hafi verið með mæðrum þeirra hafi verið til þess að sölsa undir sig verðmætum þeirra – að þau séu bastarðar!
TERRORISTI OG KARLREMBA
Fyrsta senan gengur út á að kynna fjölskyldufaðirinn og aðstæður til sögunnar en þessi kafli mætti vera örlítið styttri. Þá koma fram fyrirætlanir karlsins til þess að giftast sér yngri og fallegri konu sem er í þokkabót fyrrverandi kærasta sonar hans. Þar sést einnig vel hvernig fjölskyldufaðirinn er í raun algjör terroristi og karlremba og hvernig hann leggur sig fram um að smita ómórölskum hugmyndum til yngsta sonarins, sem enn býr heima. Verkið byrjar fyrst fyrir alvöru þegar Hilmir Snær, Elva Ósk og Stefán Hallur mæta til leiks. Hilmir Snær stendur sig með eindæmum vel í verkinu (eins og reyndar leikararnir allir) og fannst mér hann sýna þarna aftur að hann er einfaldlega frábær leikari. Synirnir halda að þeir séu á leið í jarðarför föðurins en ekki brúðkaup og hefðu eflaust annars ekki mætt. Þarna hefst togstreita verksins og húmor þess.
FRÁBÆR LEIKMYND
Vesturport gerir yfirleitt frekar tilraunakennt leikhús og frægt er orðið að í verkum þeirra er oft tekist á við þyngdarlömálið með því að nota loftfimleika.
Í Bastörðum er ekki jafn mikið um slíka fimleika og ég bjóst við en það kemur ekki að sök. Leikmyndin er mjög flott í alla staði. Um er að ræða grind með glerþaki með nokkrum brotnum rúðum, einskonar garðskála yfir fallegum garði með trjám og tjörn. Það er táknrænt og vísar í að þarna eigi maður heima sem kasti steinum úr glerhúsi?
Börkur Jónsson á heiður skilið fyrir þessa flottu leikmynd. Úr glerhúsinu hanga rólur sem einnig eru notaðar á skemmtilegan hátt í verkinu.
MIKIÐ HLEGIÐ OG FLISSAÐ
Ég skemmti mér vel á Bastörðum og fannst stemmningin góð, það var mikið hlegið eða flissað. Ég sat inni í sal en einnig voru sæti á sviðinu og velti ég fyrir mér hvort upplifunin þar hafi verið öðruvísi. Það að vera í meiri nálægð við leikarana hefur ábyggilega sitt að segja, en leikmyndin og uppsetningin er sennilega flott frá öllum sjónarhornum og sem áhorfandi út í sal varð miðja sviðsins mikilvæg og mér fannst flott að sjá hvernig var leikið með ljós, skugga og vatn!
Hér er um að ræða afar táknrænt verk sem má túlka á marga kanta. Ég spurði sjálfa mig ýmissa spurninga svo sem:
- Hvenær einhver væri svo vondur að hann væri orðinn djöfullinn sjálfur?
- Hvaða erfiðleikar eru sjálsskapaðir og hverjir þeirra eru vegna aðstæðna?
- Hvernig fær manneskja vald yfir annari og hvernig? Með peningum? Með ást eða hatri?
Svo velti maður fyrir sér þessari fallegu ást sem börn hafa á foreldrum sínum og hvernig foreldrar geta einfaldlega skemmt börnin sín, og þegar ást snýst upp í hatur, baráttu góðs og ills inni í fjölskylduforminu. Það mátti einnig sjá fyrir sér að hin sundraða fjölskylda sé táknmynd fyrir hina Norrænu fjölskyldu en fjölskyldumunstur á Norðurlöndum þykir vera svipað. Var þarna verið að sýna samspil hinnar samnorrænu fjölskyldu og hvert hún stefnir? Verkið gerist á eyju (kannski Íslandi?) og fólkinu í verkinu finnst það oft vera sem fangar á eyjunni.
TÓNLISTIN LYFTIR ÖLLU Á HÆRRA PLAN
Það var margt í mörgu í þessu verki og enn er ég ekki farin að tala um tónlistina sem var afar dramatísk og ýtti undir íburði sýningarinnar. Tónlistin er frumsamin sérstaklega fyrir verkið og flutt af Kammersveit danska ríkisútvarpsins. Þetta var klassísk tónlist og var að vissu leyti ólík texta verksins. Þarna myndaðist andstæða sem virkaði vel. Tónlistin fannst mér hafa mikið með stemninguna í verkinu að segja og setja sýninguna upp á hærra plan. Reyndar tel ég að bæði tónlistin og svo innblásturinn frá Dojstojevski að tilurð leikritsins hafi orðið til þess að það var einhver skrítinn undirtónn í verkinu sem var bæði klassískur og dramatískur.
En sem sagt – þetta er mjög góð sýning og hún er skemmtileg. Í henni er frábær leikmynd sem er notuð á flottan hátt og ýtir undir húmorinn í verkinu, það er flott tónlist og sýningin er vel leikin en þá vil ég hrósa sérstaklega Hilmi Snæ, Stefáni Halli, Nínu Dögg og Sigurði Þór. Gísla Erni og liðsmönnum Vesturports tekst enn og aftur að sýna hvers þau eru megnug!
Smelltu HÉR til að finna miða eða lesa meira.
Aðstandendur sýningarinnar í Borgarleikhúsinu eru:
Leikarar: Jóhann Sigurðarson, Nína Dögg Filippusdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Hilmir Snær Guðnason, Sigurður Þór Óskarsson, Þórunn Erna Calusen, Elva Ósk Ólafsdóttir, Víkingur Kristjánsson, Jóhannes Níels Sigurðsson.
Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson, leikmynd: Börkur Jónsson, búningar: Maria Gyllenhoff, lýsing: Carina Persson/Þórður Orri Pétursson, tónlist: Lars Danielsson og Cæcilie Norby, hljóðmynd: Thorbjörn Knudsen, hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson og gervi: Árdís Bjarnþórsdóttir.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.