Á fimmtudaginn fór ég á frumsýningu, eða endurfrumsýningu, á verkinu LISTAVERKIÐ í Þjóðleikhúsinu en þar fóru þeir Baltasar Kormákur, Hilmir Snær og Ingvar Sigurðsson með hlutverkin.
Verkið er eftir franskt samtímaskáld, Yasminu Reza, en sú er fædd árið 1960 og kemur af írönskum gyðingaættum. Yasmina er meðal virtustu leikskálda okkar tíma en Listaverkið var fyrsta verk hennar sem sló í gegn. Þetta var árið 1994 en skömmu síðar var það sett upp í Þjóðleikhúsinu og þá með sama þríeyki og heiðrar sviðið að þessu sinni.
MÁLVERK Á 20 MILLJÓNIR
Listaverkið segir frá þremur vinum, þeim Mark, Serge og Ivan en sagan hefst á því að Serge er búin að kaupa sér málverk á 20 milljónir. Málverk sem er hvítt á hvítum striga. Mark vinur hans er hreint ekki sáttur við kaupin og missir sig alveg yfir þessu. Kallar verkið ‘hvítt prump’ sem gerir Serge eðlilega mjög sáran og svo vindur þetta allt upp á sig.
Eftirleikurinn er einhver fyndnasta vitleysa sem ég hef séð í langan tíma. Á sama tíma situr maður kjaftstopp með hausverk yfir mannlegri hegðun, sem kemur svo ótrúlega vel fram í þessu verki:
Tilgangsleysi rifrilda, sjálfhverfu, sjálfsvorkunnar, frekju, sjálfhverfrar iðrunar, stjórnsemi og svo framvegis – mennirnir þrír eru hver öðrum spaugilegri í berskjaldaðri mennsku sinni.
Mark er argasti frekjuhundur, Serge er siglir milli skers og báru og Ivan er litli glaði meðvirknishvolpurinn sem reynir að gera öllum til geðs. Ætli málverkið sjálft sé svo ekki fjórði karakterinn, klætt í nýju fötin keisarans og gerir með því hina bandbrjálaða. Einn segir að hann sé nakinn, annar heldur því fram að hann sé klæddur og þeim þriðja er alveg sama.
Verkið er einhvernveginn svo margt að það er erfitt að týna það allt til. Fyrst og fremst er það samt fyndið á sama tíma og það gerir grín að samskiptum milli homo sapiens sapiens. Í þessu tilfelli eru það þrír vinir, en auðvitað getur svona vitleysa líka gengið milli vinkvenna, hjóna, mæðgna, feðga og svo framvegis. Listaverkið, eða Art, er líka pæling um samtímalist og hvernig ekkert annað en óáþreifanlegt viðhorf gerir nánast verðlausan striga 20 milljón króna virði.
HILMIR SNÆR FRÁBÆR
Hilmir Snær sló öll met. Ég myndi ganga svo langt að kalla þetta leiksigur hjá honum en hann var algjörlega frábær sem aumingjans Ivan (karkterinn/hlutverkið líka mjög gott en Alfred Molina fékk Tony verðlaunin fyrir að leika sama hlutverk á Broadway). Baltasar og Ingvar voru líka frábærir og mjög sannfærandi í hlutverkum sínum sem Mark og Serge. Ég var svo heppin að sitja fyrir aftan mjög vanan leikhúsgest á frumsýningunni en hann tók af skarið og klappaði fyrir leikurunum og hrópaði BRAVÓ í miðri sýningu – eða þegar kapparnir þrír höfðu hrifið alla með sér með snilldarleik. Það jók sannarlega á stemmninguna enda langaði mann að klappa.
Listaverkið var í stuttu máli virkilega skemmtileg leikhúsferð. Gott leikrit, góðir leikarar og ég er enn að hugsa um þetta nokkrum dögum síðar: týpurnar, orðaskakið – og merkinguna.
Drífðu þig á Listaverkið!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.