Í fyrrakvöld var frumsýning á leikritinu Blakkát eftir Björk Jakobsdóttur. Við mættum pjattaðar og hressar í Fjörðinn en leikritið er sýnt í Gaflaraleikhúsinu.
Mér finnst alltaf gaman og viss stemning að koma í Gaflaraleikhúsið i Hafnarfirði. Salurinn er ekki ýkja stór og sviðið er þetta venjulega “blakkbox”.
Það fyrsta sem ég tók eftir var að frammi í andyri voru myndir af leikkonunni í hlutverki sínu í fjölskyldurömmum. Þetta kom vel út, ég vissi að ég væri að fara á verk um konu sem væri alkóhólisti að vakna úr blakkáti – svo að fjölskyldurammarnir voru nokkuð skemmtinleg tilvísun.
Leikmyndin, sem er hönnuð af Rebekku A. Ingimundardóttur, virkaði líka vel. Hún var einföld og flott en einnig voru ljósin notuð á skemmtinlegan máta í sýningunni en Friðþjófur Þorsteinsson sér um lýsingu.
METNAÐARFULLT
Björk Jakobsdóttir sýnir með þessu verki hæfileika sína sem leikkona en einnig sem leikskáld. Samkvæmt leikskránni er sýningin styrkjalaus. Það eitt gefur til kynna að að baki sýningarinnar liggji mikill metnaður. Mér fannst stíllinn yfir sýningunni flottur, öll umgjörðin var vel hugsuð og flott. Handritið var líka gott, þrátt fyrir að ég geti alveg viðurkennt að hafa ekki hlegið af öllum bröndurunum. Það var svolítið eins og húmor sýningarinnar gæti betur fallið í kramið hjá einstaklingum sem eru í eldri kantinum en þeim sem yngri eru. Hins vegar voru þarna sprettir (sérstaklega eftir hlé) þar sem húmorinn breyttist örlítið þannig að ég tel að verkið ætti að geta höfðað til breiðs hóps.
EIN OG ÓSTUDD
Björk Jakobsdóttir stendur sig mjög vel í hlutverkinu, hún ber verkið uppi næstum óstudd og á skilið hrós fyrir það hve vel hún skilar persónu sinni. Það er Edda Björgvinsdóttir sem leikstýrir og hefur samstarfið gengið upp því þarna finnst manni oftar en ekki glitta í Eddu sem greinilega hefur lagt sitt af mörkum til sýngarinnar. Það var einnig gaman að sjá þá Hjört Jóhann Jónsson og Magnús Guðmundsson – þessir ungu menn eru báðir sannarlega góðir leikarar.
Þrátt fyrir að um sé að ræða viðfangsefni sem að sjálfsögðu hefur alvarlegan undirtón er léttleikinn í fyrirrúmi og Björku tekst að fá fólk til þess að hlægja að eymdinni. Það er einnig gaman að fylgjast með því hvernig aðalpersónan heldur uppi samræðum við sjálfa sig og um leið áhorfendur.
En segjum ekki meira – Pjattrófurnar hvetja fólk til þess að taka frá kvöld og skella sér á Blakkát og fara svo jafnvel og fá sér í tánna á eftir! 😉
Hér er Facebook síða verksins.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.