Árið 1999 fór ég að sjá leikritið Sjálfstætt Fólk í Þjóðleikhúsinu og varð alveg hreint brjáluð ofan í tær að sýningu lokinni.
Ástæðan var sú að ég þoldi ekki Bjart og allt sem hann stóð fyrir. Mér fannst hann stjórnsamur heimskingi sem kúgaði allt og alla í kringum sig á meðan hann sjálfur var kannski sá allra kúgaðasti en hafði í raun ekki minnstu hugmynd um það. Þetta ár var ég nýlega flutt aftur til Fróns eftir að hafa búið erlendis í um fjögur ár og var frekar upptekin af því að skoða spillinguna hér á eyjunni sem enginn virtist spá neitt í. Mér fannst frekar erfitt að vera Íslendingur á þessum árum.
Á föstudaginn fór ég svo aftur að sjá þetta leikrit í Þjóðleikhúsinu en nú var það Atli Rafn Sigurðsson sem túlkaði vitleysinginn Bjart.
Rétt áður en rauða flauelstjaldið var dregið frá hvíslaði ég að sessunauti mínum hvað ég hefði orðið reið síðast:
“Þetta minnti mig bara svo á þann forarpytt sem við Íslendingar erum í raun dregin upp úr,” pískraði ég og um leið fór tjaldið frá og við blasti sviðsmyndin.
Risastór steinsteypu pyttur.
Ofan í pyttinum standa þessi svokölluðu Sumarhús hans Bjarts, hann sjálfur og tilvonandi kona hans hún Rósa ásamt fleira fólki og svo fór sagan, sem flestir Íslendingar ættu þekkja, að rúlla með því að Rauðsmýrarmadamman ávarpar salinn.
Við tekur svo ömurðin. Rósa sturlast úr einmanaleika, deyr við illan leik þegar hún fæðir Ástu Sóllilju, Bjartur tekur stelpuna að sér, giftist aftur og eignast fullt af börnum sem deyja líka, er hrikalega vondur við konuna sína og börnin, gefur þeim lítið að borða, lemur þau, rífur kjaft, tekur eigingjarnar og heimskulegar ákvarðanir. Blóð, öskur, hungur, steypa, tár, örvænting og afneitun.
Sumir elska Bjart. Það get ég persónulega ekki skilið og ég held satt að segja að höfundur sögunnar hafi ekki viljað gera hann sérlega aðlaðandi. Ætli mörgum finnist hann ekki vera fórnarlamb sem varð fyrir því “óláni” að ráða aldrei eigin för í eigin lífi. Öllu prangað inn á hann, hvort sem var jörð, kú, konum eða húsi. Þetta er væntanlega spurning um hvað maður hefur mikla trú á fórnarlambs-konseptinu. Mín er frekar takmörkuð.
Það er Þorleifur Arnarsson sem stýrir sýningunni en honum þótti takast sérlega vel upp með Engla Alheimsins vorið 2013. Helstu hlutverk eru í höndum Tinnu Gunnlaugs, Elmu Stefaníu Ágústsdóttur, Lilju Nótt Þórarinsdóttur, Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur, Arnars Jónssonar, Egils Egilssonar og Stefáns Halls Stefánssonar.
Þar sem þetta var sjötta sýning fóru fram umræður að henni lokinni en slíkt er orðið að hefð í Þjóðleikhúsinu. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og það kom á óvart hvað margir í salnum voru ófeimnir að koma með spurningar og athugasemdir. Sá sem reið á vaðið spurði út í sviðsmyndina sem óneitanlega er hrikalega yfirþyrmandi þarna á sviðinu. Minnti á Kárahnjúkavirkjun eða eitthvað þaðan af verra. Steypa sem var við það að steypast yfir mann. Risastórt grátt fjall.
Á hlið þess einskonar göngupallur en uppi á honum þrammaði yfirstéttin af Rauðsmýri og kastaði stundum smá peningum niður til Bjarts og fjölskyldu. Frá þessu spannst talið yfir að Rauðsmýrar maddömmunni sem hóf sýninguna á því að ávarpa salinn þar sem hún sat í upphlut með bláan kaffibolla í hönd. Konu í salnum fannst það einkennandi fyrir okkur sem þjóð að geta aldrei sleppt takinu af Bjarts sjálfsmyndinni, Bjarti sem er innra með okkur:
“Fyrst hún var svona rík, af hverju var hún ekki bara með gullbolla í staðinn fyrir bláan fátæklegan fant?”
Mér fannst þetta frábær punktur. Við erum auðvitað öll ‘made in sveitin’ og það mun eflaust taka þessa litlu þjóð nokkuð marga áratugi, ef ekki eins og tvær aldir til viðbótar að við náum upp í þá menningu sem fylgir heimsborgunum erlendis. Þar sem matarvenjur, byggingarlist, tíska, myndlist, tónlist og allskonar siðir og menning þróaðist öldum saman en ekkert haggaðist hér á skeri fyrr en í seinni heimstyrjöld. Við sátum bara kúguð og föst, fyrir utan auðvitað fólk, eins og til dæmis hann Nonna son Bjarts, sem kom sér í burtu.
Í sjálfu sér má segja að uppsetningin á þessu verki sé ekki minni túlkun á því og speglun á þjóðarsálina en viðleytni til að segja sögu.
Í seinni hluta sýningarinnar ræður þessi túlkun ríkjum. Það er farið út fyrir rammann og allt í einu er Bjartur kominn lengra fram í tímann þó sagan eigi sjálf að gerast á bilinu 1915-35. Hann kætist og trallar í seinni heimstyrjöldinni sem virðist einhver sú mesta blessun sem hefur komið fyrir þetta land. Tíminn líður, hann flytur með syni sínum inn í fokhelt hús og svo kemur verðbólgan…
Hann er að vanda skuldum vafinn en samt telur hann sér trú um að hann sé bæði sjálfstæður og “frjáls”. Frjáls eins og menn voru “frjálsir” með flatskjái, nýjar eldhúsinnréttingar og svarta Range Rovera á raðgreiðslum VISA í hinu svokallaða góðæri. Bjartur heldur líka áfram að þræla fyrir “Rauðsmýrarfólkið” sem hefur nú raðað sér í sæti Alþingishússins og stjórnar með náðunum og bendingum að ofan eins og áður.
Ekkert hefur breyst.
Sem heild fannst mér þetta góð sýning og vel spilað úr öllu sem rammar inn þá umgjörð sem þarf til að góðri sögu, ádeilu eða upplifun sé komið til skila frá sviði yfir til áhorfenda.
Leikararnir voru allir mjög góðir þó misreyndir séu. Senuþjófurinn var þó Ólafur Egill Egilsson sem kennarinn ógeðslegi. Fyndnari týpu hefur maður sjaldan séð. Það hefði mátt vera meira af honum. Nýstirnið Elma Stefanía var sterk að vanda og það sama þótti mér um Lilju Nótt. Mér fannst líka Stefán Hallur sérlega góður sem sonur hreppstjórans.
Búningarnir voru einstaklega flottir og sviðsmyndin var vel nýtt með myndböndum og góðri lýsingu. Þetta fólk veit hvað það er að gera þarna í Þjóðleikhúsinu. Enginn amatörsbragur á neinu.
[usr 4.5]Nú bíður maður bara eftir uppsetningu, sjónvarpsmynd eða kvikmynd sem byggir á þessari sögu en er sett upp í góðærinu. Mig langar að sjá Bjart á svörtum raðgreiðslu Range Rover.
Lestu endilega meira um sýninguna hér á heimasíðu Þjóðleikhússins og hér er gaman að fylgjast með leikhúsinu á Facebook.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.