Ég hef nú aldrei skrifað um leikrit áður, enda fer ég ekki í leikhús nema vera boðið eða heyra af verki sem ég bara má alls ekki missa af.
Ég ákvað einmitt eftir að hafa heyrt svo mikið lof um leikrit Arthurs Miller “Allir synir mínir” að ég yrði að sjá þetta verk. Ég dreif mig að kaupa miða á næst síðustu sýninguna og lét mig hafa það að fá sæti lengst upp á svölum. Sætaskipan skipti mig engu máli þegar leikritið var hafið. Um leið og tjaldið féll frá og leikritið hófst með látum var ég komin inn í annan heim.
Sagan gerist í Bandaríkjunum eftir stríð. Fjölskyldufaðirinn er verksmiðjueigandi í Bandaríkjunum, sem var á sínum tíma sýknaður af ákæru um að hafa framleitt gallaða vélahluta í flugvélar. Yngri sonur hans var herflugmaður en hvarf í stríði fyrir þremur árum og er talinn af. Móðirin heldur þó enn í vonina um að hann sé á lífi og bíður heimkomu hans. Þegar eldri sonur hjónanna upplýsir um ást sína og unnustu yngri bróðurins – fer af stað ófyrirsjáanleg atburðarás, og fjölskyldan neyðist til að takast á við ógnvænlega hluti úr fortíðinni.
Þetta er verkið sem gerði Arthur Miller frægan og ég er ekki hissa, söguþráðurinn sem byggður er á sannri sögu er frábærlega skrifaður og persónusköpun og texti svo sannur og tímalaus.
Ádeilan á lífsgæðakapphlaupið og áherslur okkar í lífinu gæti allt eins átt við í dag. Þetta er spenna og dramatík í hæsta gæðaflokki og leikur aðalpersónanna er lýtalaus.
Guðrún Gísladóttir, Jóhann Sigurðarson, Björn Thors og Arnbjörg Hlíf Valsdóttir eiga lof skilið, bravó!
Ein snilldarsetning sem ég man eftirog vona að ég fari rétt með er:
“ Ég veit vel að flestir menn eru ekkert skárri en þú en ég hélt að þú værir betri en þeir!”
Arthur Miller er eitt besta leikskáld sem uppi hefur verið og svo skemmir nú ekki fyrir að hann giftist Marilyn Monroe, virkilega áhugavert skáld og karakter sem ég ætla að stúdera betur núna.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.