Ég tók leigubíl hjá Hreyfli í um daginn og fannst bílstjórinn vægast sagt undarlegur í samskiptum. Eiginlega of skrítinn til að eiga að vera að keyra leigubíl. Segi ekki að hann hafi verið eins og Leigubílstjóri dauðans úr Fóstbræðrum, en nálægt því samt.
Mig langaði að vita frekari deili á manninum en það voru engar upplýsingar um hann sýnilegar í bílnum. Sjálfur var hann með öryggismyndavél – og grímu fyrir andlitinu. Ég vildi ekki spyrja til nafns, stemmningin bauð ekki upp á það, en þetta vakti mig til umhugsunar.
Bílstjórinn þarf að gefa leyfi til þess að viðskiptavinur fái að vita nafn hans
Þegar ég panta mér Uber eða stekk upp í leigubíla í flestum stórborgum heims, þá fer ekkert á milli mála hver er að ferja mig. Nafn, mynd og númer bílstjórans er mjög áberandi á mælaborðinu eða á skilrúminu milli bílstjóra og farþega. En svona er þetta ekki hér á skeri.
Verandi blaðamaðurinn og meðvitaði neytandinn sem ég er þá bjallaði ég auðvitað í Hreyfil í morgun og spurði út í nafn þessa bílstjóra (ég hafði númer bílstjórans á kvittun). Svarið sem ég fékk var að slíkar upplýsingar væru ekki gefnar upp, án sérstaks leyfis frá bílstjóranum. Furðulegt? Já það finnst mér.
Leigubílstjórinn veit meira um þig en starfsfólkið í Hagkaup
Starfsfólk í matvöruverslunum er merkt með nafni, og þegar það réttir manni strimil af kassanum þá kemur nafn þeirra fram á honum. Nöfn flugmanna eru hátíðlega tilkynnt þegar vélin er komin á loft, allt heilbrigðisstarfsfólk er með nafnspjöld framan á sér os.frv. os.frv… En einhver random undarlegur leigubílstjóri sem veit töluvert meira um viðskiptavini sína en starfsmaður á kassa í Hagkaup fær að krúsa um með grímu og myndavél og enginn má vita hvað hann heitir nema með sérstöku leyfi frá honum sjálfum. Verulega sérstakt. Bara á Íslandi?
Myndin við færsluna er fengin að láni frá heimasíðu Hreyfils en ljósmyndara er ekki getið.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.