Þá er ágústmánuður runninn upp og það þýðir aðeins eitt-hálfmaraþonið er í þessum mánuði!
Mikið hefur verið að gera þetta blessaða sumar og hlaupaáætlanir mínar fuku allar út um veður og vind þegar eiginmaðurinn fór á frystitogara í mánuð og frúin ein heima með börnin ásamt því að vera í sumarvinnu.
Ég viðurkenni það fúslega að ég hljóp ekki mikið þann mánuðinn en reyndi að vera dugleg að taka góðar kraftgöngur og létta spretti en þreytan var farin að segja til sín síðustu tvær vikurnar eftir kvöldvaktir og andvökunætur með litlum kút.
Þegar þreytan nær manni þá er voðinn vís, óhollt át og leti var lykillinn að því að komast af næstu tvær vikurnar en eiginmaðurinn kom heill heim af sjónum og þá var sett aftur í fimmta gír og ég fór aftur út að hlaupa eins og ég mögulega gat – þó var mjög erfitt að koma sér af stað aftur en núna eru einungis nokkrir dagar í hlaup og ekkert elsku mamma-ég get, ætla og skal komast þessa kílómetra þó að ég skríði í mark!
Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar kom að því að velja hvaða félag ég ætti að hlaupa fyrir og Krabbameinsfélag Íslands varð fyrir valinu, krabbameinið stendur mér nærri þar sem að ég missti afa minn þegar ég var lítil úr þessum illvíga sjúkdómi.
Hleyp fyrir Sigrúnu
Ég hleyp einnig fyrir frábæra manneskju sem hefur sýnt mikinn styrk og þrautseigju í baráttu sinni við krabbann, það er okkar eigin pjattrófa hún Sigrún Þöll.
Sigrún bloggar hreinskilningslega og af miklu æðruleysi um lífið og baráttuna á blogginu sínu www.barbietec.com og ég bíð alltaf spennt eftir að lesa bloggið hennar þar sem að hún er bæði skemmtilegur penni og lítur á björtu hliðarnar þrátt fyrir meðferðir og annað sem fylgir baráttunni við krabbameinið.
Ég hef fengið að kynnast Sigrúnu í gegnum pjattrófurnar og það er alltaf stutt í brosið og gleðina hjá henni, hún er fullur sarpur af fróðleik og dugnaði og voða skemmtileg. Ég tek hana til fyrirmyndar og lifi lífinu í núinu -þú veist nefninlega aldrei hvað gerist næst.
Ef að þú vilt styrkja krabbameinsfélag Íslands og heita á mig þá er styrktarsíðan mín hér. Þú getur einnig farið inn á www.hlaupastyrkur.is og fundið félag sem þú vilt styrkja- mundu margt smátt gerir eitt stórt.
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig