Hefurðu lesið hana? spurði ég konuna á bókasafninu um leið og ég skilaði einhverri bestu bók sem ég hef lesið. Hún horfði á mig með undrunarsvip, hvað ég væri nú að skipta mér af lesefni hennar.
Nei, hún hafði ekki lesið Louise L. Hay, hafði aldrei heyrt á hana minnst einu sinni… og hún horfði á mig eins og ég væri búin að missa það.
Ég fékk hana samt til að gefa mér loforð um að taka Louise L. Hay upp í rúm með sér sama kvöld – hún myndi ekki sjá eftir því.
Bókin sem um ræðir heitir “Sjálfstyrking Kvenna” og er ætluð konum á öllum aldri. Hún er eftir Louise L. Hay sem undanfarna þrjá áratugi hefur kennt fólki um gervallan heim sjálfsrækt. Louise er meistari á sviði jákvæðrar hugsunar, jákvæðum staðfestingum sem hún notar til að breyta aðstæðum í lífi sínu – og hún kennir í bókinni hvernig má læra þessar aðferðir sínar.
Ef ég ætti eina ósk væri hún sú að Louise væri skyldunámsefni hjá öllum stelpum í öllum grunnskólum landsins. Ég vildi óska þess að kennarinn minn hefði rétt mér Louise L. Hay þegar ég var stelpa, þess í stað voru mér kennd öll önnur fög; lestur, skrift, stærðfræði, matreiðsla, myndlist og fleira. Vissulega var það allt gangnleg en mikið hefði ég viljað kynnast Louise líka.
Þegar ég las þessa bók fyrst hafði hún svo mikil áhrif á mig að það mætti líkja þeim við lítil kraftaverk.
Alltaf þegar ég uppgötva eitthvað nýtt segi ég vinkonunum frá því, svoleiðis eiga ekta vinkonur að vera – pínulítil afskiptasemi með kærleiksívafi (!). Hvort sem það snýst um hvar er hægt að fá flottustu og ódýrustu strípurnar í bænum, mest sexí þröngu buxurnar á besta verðinu eða eins og í þessu tilfelli – þegar ég vil kynna þær fyrir nýju bestu vinkonu minni henni Louise.
Allar nema ein komu þær af fjöllum, alveg eins og konan á bókasafninu en ég vona auðvitað að nú verði breyting þar á.
Louise fjallar um hvernig við konur getum bætt líf okkar á ótal marga vegu; tekist á við einmanaleika, fjárhagsvandræði, neikvæðni, öryggisleysi, hamingju, ástina, sparnað, barneignir, tæknifrjóvganir, tíðahvörf og elli kerlingu. Allt snertir þetta okkur nútímakonur og við getum miðlað þekkingu okkar áfram til dætra okkar og barnabarna. Ég get ekki annað en endurtekið rullununa sem ég beindi að bókasafnsverðinum: “Lestu hana strax!!”
Því miður er bókin ófánleg og hún finnst ekki á mörgum bókasöfnum en hún er í þeim flokki sem iðulega er stolið!!
Hins vegar veit ég til þess að Guðrún G. Bergmann sem þýddi bókina hefur gefið út aðrar bækur eftir höfundinn.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.