Hver og ein manneskja ber ábyrgð á líðan sinni og farsæld.
Að sjálfsögðu eru þó alltaf undantekningar eða ákveðinn afsláttur af ábyrgð. Til dæmis ef um barn er að ræða eða brotna eða sjúka manneskju.
Foreldrar og samfélag bera saman ábyrgð á börnum og þeim sem ekki eru hæfir til að bera hana.
Það skal tekið fram að við þurfum sérstaklega að varast að taka ekki ábyrgðina af fólki sem á að hafa hana, getur það og vill. Börn hafa alltaf einhverja ábyrgð og hún eykst með hverju árinu. Við megum ekki og eigum ekki að gerast þjófar á þroska þeirra með að taka af þeim þá ábyrgð sem þau geta tekið sjálf.
Tuttugu hrós gufa upp
Við vitum alveg að tveir einstaklingar geta lent í svipuðu áreiti og annar tekur því vel (eða bara lætur það fram hjá sér fara) en hinn fer alveg í klessu. – Hvað veldur því að tuttugu hrós geta gufað upp og orðið verðlaus fyrir einni gagnrýni?
Er það ekki viðhorf þess og óöryggi sem mætir gagnrýninni – að veita athygli því neikvæða og samþykkja það? Einnig ef gagnrýnin er réttmæt, hvernig væri að taka á móti henni, skoða hvað var gott og hvað ekki og fyrirgefa sér það og vinna úr því í framhaldi? Eða er betra að fara í fórnarlambsreiðina út í sjálfa/n sig og/eða aðra? – Og hvað varð um öll tuttugu jákvæðu atriðin. Eru þau ekki lengur samþykkt?
Nei takk
Við getum hugsað okkur samskipti þar sem annar aðilinn er með leiðinlegar athugasemdir og hinn aðilinn þegir bara og tekur allt inn á sig og brotnar hægt og bítandi niður. Stundum reiðist hann gífurlega þegar dropinn fyllir mælinn, springur – en svo byrjar allt upp á nýtt.
Við getum séð þetta fyrir okkur myndrænt, sem veiðimann sem veifar veiðistöng með agni á önglinum. Okkar verkefni er þá að vera ekki eins og fiskurinn sem bítur á og engist um, heldur að hafa skynsemi til að gera okkur grein fyrir því sem gerist EF við bítum á. Við segjum því “nei takk” þetta er mér ekki bjóðandi, eða hreinlega látum öngulinn dingla og veiðimanninn engjast því að hann nær engu.
Leigjandinn sem ekki borgar
Þegar við erum farin að upplifa gremju í samskiptum við annað fólk, þá erum við farin úr jafnvægi og töpum hugarró en hugarró er ein af undirstöðum farsældar. Þess vegna er mikilvægt að við setjum okkur mörk. Við tökum gagnrýni og nýtum það sem er uppbyggilegt en hendum hinu. Ef við tökum gagnrýni illa, í staðinn fyrir að nýta hana uppbyggilega, þá erum við að leyfa öðrum að stjórna okkar lífi og verðum eins og strengjabrúður umhverfisins. Stundum er talað um að vera með leigjanda í höfðinu sem borgar ekki leigu! –
Hver er leigusalinn? – Hver hleypti honum þarna inn. – Hvers er ábyrgðin?
Á ég að gera þaaað?
Af hverju gerir ekki einhver eitthvað, spyrjum við oft og bendum í allar áttir. Hvað með mig og hvað með þig? Ert þú einhver? – Við getum ekki breytt fólki, en við getum breytt sjálfum okkur og við getum valið okkur viðbrögð. Það tekur að sjálfsögðu tíma en ef við hugsum í hvert skipti sem við upplifum gremju út í einhvern eða einhverjar aðstæður til veiðimannsins og öngulsins, – því að veiðimaðurinn þarf ekkert bara að vera einhver persóna, heldur getur þessi veiðimaður verið táknrænn fyrir aðstæður sem eru okkur skaðlegar og við þurfum að velja okkur frá, við þurfum ekki að samþykkja.
Aðstæður geta bæði verið huglægar og veraldlegar. – Það er ekki nóg að flýja úr húsi ofbeldismannsins ef að hann fær enn leyfi til að gista í höfðinu á okkur.
Hver er sinnar gæfu smiður
Niðurstaða mín eftir vinnu með fólki er því að því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir ábyrgð á eigin líðan, eigin hamingju og að setja fókus inn á við, því betra taki náum við á tilverunni, verðum sterkari. Förum ekki í fýlu eða gremju – því að það bitnar mest á okkur sjálfum og smitar reyndar oft út í ranga aðila, þá sem okkur þykir vænst um.
Hamingja og farsæld virkar eins -hún smitar til okkar nánustu.
Hamingja þín er hamingja mín og öfugt. Ef við getum ekki láð annarri manneskju að vera hamingjusöm, þá þurfum við að líta í eigin barm. – Erum við þá upptekin af okkur sjálfum, eða erum við í raun uppteknari af hinni manneskjunni?
Leyfðu þér að upplifa hamingju dagsins í dag
Hamingjunni með að búa í þér, vera til staðar, og hafa leyfi og val til að reka út alla óæskilega leigjendur úr þínum kolli. – Líka þá sem sitja þar enn frá bernskunni, frá unglingsárum eða einhverja sem valda þér vanlíðan í dag. – Svo þarf að halda vöku sinni, – ekki gleyma sér eins og sá sem flýtur sofandi með opinn munninn, svo að agn veiðimannsins hafi greiða leið. –
Við verðum að lifa með vitund – ekki án vitundar. Hvað ert þú að gera til að lifa betra lífi og hlúa að hamingju þinni?
Með bestu kveðju,
Jóhanna Magnúsdóttir hjá Lausninni – Lausnin á Facebook.
Lausnin eru sjálfsræktarsamtök, stofnuð í upphafi árs 2009. Samtökin sérhæfa sig í meðvirkni og fíkni-tengdum þáttum. Hér er um að ræða samtök sem einsetja sér að veita framúrskarandi aðstoð fyrir þá sem ekki eru frjálsir í eigin lífi vegna ótta, kvíða, takmarkaðs tilfinninga læsis eða lágs sjálfsmats. Frelsi lífinu og í samskiptum við aðra er grunnstoð hamingjunnar og teljum við frelsis þörf okkar eitt mikilvægasta og stekasta afl lífsins. Ef við erum ekki frjáls í samskiptum, hjónabandi, vinnu, með fjölskyldu eða kunningjum þá höfum við ekki getuna til njóta allra þeirra fegurðar sem lífið og tilveran hefur upp á að bjóða. Lífið er þess virði að lifa því, ef þú sérð það ekki eða upplifir það ekki þá gætir þú átt við meðvirkni að stríða.