Það ríkir eitthvað æði núna varðandi landakort af öllum stærðum og gerðum. Þetta trend hefur verið svolítið lengi í uppsiglingu, byrjaði að læðast aftan að manni svona fyrir um það bil tveimur árum og er fyrst núna að springa út svo um munar.
Öll helstu blöðin eru að birta myndir af landakortum, bloggin eru full af þessu, búðirnar fylgja á eftir og áður en við vitum af erum við komin með eitt slíkt uppá vegg eða hillu. Eins og alveg óvart !
Það skemmtilega við þessa tískubylgju er að það virðist sem allir ættu að geta fundið eitthvað sitt hæfi og sinn stíl. Brúntóna gamaldags landakort eru alveg jafn mikið að gera sig og þau sem eru nær nútímanum, stærðin einskorðast ekki við neitt sérstakt, áferðin er jafnmismunandi og kortin eru mörg.
Kort af borgum og borgarlandslagi og jafnvel neðanjarðarlesta-kerfa-kort eru svo að færa sig uppá skaftið og það er frískandi að sjá þau til tilbreytingar.
Þá er ótalið allt það dót sem er skreytt með kortamyndum, ég hef rekist á hluti eins og WC-pappír og tekönnur, diskamottur, leikföng, púða og dósir svo eitthvað sé nefnt.
Myndirnar sýna að það er auðvelt að falla fyrir þessari bylgju því fyrir utan smartheitin þá er hún svo ofboðslega praktísk.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.