Ég er ótrúlega skotin í nýju jólalínunni frá Lancôme sem að Kate Winslet hannaði í samstarfi við merkið til styrktar Golden Hat samtökunum, en þau styrkja börn með einhverfu.
Línan samanstendur af L’absolu Rouge varalitnum, fallegum kinnalit og naglalakki. Varaliturinn og naglalakkið fást hvort um sig í 5 tónum.
Þar sem ég er orðin forfallinn naglalakkafíkill að þá varð ég að prufa þau. Rauði liturinn (nr. 22) er í miklu uppáhaldi hjá mér, en ef þið leitið að klassísku, rauðu, glansandi lakki að þá er þetta algjörlega málið! Ég hugsaði strax um Marilyn Monroe þegar ég sá það.
Svo er annar jólalegur en aðeins rokkaðri litur sem mér leist vel á, en hann er nr 23. Svartur með örlitlum gullögnum og fer fallega við hvaða föt og farða sem er. Báðir litirnir eru vel þekjandi og fljótir að þorna, sem er stór plús fyrir manneskju eins og mig sem hefur ekkert sérstaka þolinmæði fyrir naglalakkaþornun.
Ég held að það sé alveg málið að nota rauða litinn á aðfangadagskvöld og þann dekkri í áramótapartýið, svo skemmir ekki að maður styrkir gott málefni í leiðinni!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com