Vantar þig nýja uppskrift fyrir grillveislu helgarinnar? Hér kemur tillaga að spennandi lambakjötsmatreiðslu þar sem hoisin-sósan góða er í lykilhlutverki. Meðlætið er nýjar kartöflur og fylltir tómatar, en fyrsta kartöfluuppskera sumarsins er einmitt komin í sumar verslanir.
Bragðið er mjög sérstök blanda salts, sætu og sterks krydds, en hún er gerð úr sojasósu, hvítlauk, ediki, sojabaunum og fleiru. Hoisin-sósan fæst í litlum krukkum eða flöskum í matvöruverslunum. Hún er mjög ljúffeng í alls kyns kryddlegi fyrir ýmis konar kjöt, ekki síst grillað. Uppskriftin er fyrir fjóra.
Lambið
- 800 g lambalundir
- 3 msk. hoisinsósa
- 2 msk. sojasósa
- 1 msk. ólífuolía
- 2 hvítlauksrif, marin
- 1 dl graslaukur, smátt skorinn
Skerið kjötið í hæfilega stóra bita og setjið í skál eða bakka. Hrærið hoisinsósu, sojasósu, ólífuolíu, hvítlauk og graslauk vel saman og hellið yfir kjötið. Látið marinerast á köldum stað í góða stund, amk í hálftíma, helst yfir nótt. Grillið eða steikið kjötið við frekar háan hita í um 4 mínútur á hvorri hlið. Berið fram með fersku grænu salati, kartöflusalati og fylltum tómötum.
Fylltir tómatar
- 2-4 tómatar, eftir stærð
- 2-3 hvítlauksrif, marin
- 4 msk. mozzarellaostur, rifinn
- 1-2 msk. fersk basilíka, skorin
- nokkrar svartar ólífur, sneiddar
- salt og pipar
Skerið tómatana í tvennt, skafið kjötið varlega innan úr með teskeið og setjið í skál. Blandið hvítlauk, ólífum, basilíku og mozzarellaosti saman við. Raðið tómötunum í eldfast mót eða í ofnskúffu og bakið við 180 gráður í 15-20 mínútur. Skreytið með ferskri basilíku áður en borið fram.
Kartöflusalat
Nýjar kartöflur eru nú yfirleitt bestar eins og þær koma fyrir, soðnar úr léttsöltu vatni og borðaðar með hýðinu og kannski örlitlu smjöri. En með grillmat er kartöflusalat ómissandi.
- 500 g nýjar kartöflur, óskrældar
- 1 msk. létt majones
- 2 msk. sýrður rjómi, 10% eða grísk jógúrt
- 1 msk. grófkorna sinnep
- 2 msk. graslaukur, saxaður
- skreytt með rauðlauk, smátt skornum
Hreinsið kartöflurnar vel og sjóðið í léttsöltu vatni. Hellið vatninu af þeim og látið kólna. Hrærið saman majones, sýrðan rjóma, sinnep og graslauk og blandið saman við kartöflurnar.
NJÓTIÐ!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.