Það virðist vera innbyggt í marga að vera sífellt að leita sér að fyrirmyndum, fólki sem gefur þeim nýja sýn á hversdagslega hluti og fólki sem það getur jafnvel litið til þegar eitthvað bjátar á.
Í seinni tíð hefur það orðið æ algengara að fólki finnist sjálfsagt að leita þessarra fyrirmynda á meðal
fræga fólksins sem er svosem alveg gott og blessað fyrir utan það að margir (þar með talið ég á tímabili) virðast ætlast til þess að fræga fólkið væri fullkomið að öllu leyti.
Ég hef ekki gert neina marktæka rannsókn sem styður það viðhorf mitt að þessi krafa um fullkomnun bitni frekar á konum en ég er samt sannfærð um að það sé staðreynd (ef einhver hefur haldbær rök fyrir öðru má samt endilega benda mér á það).
Krafan um fullkomnun á ekki aðeins við um líkama og útlit heldur líka um skoðanir, lífsviðhorf og gjörðir og ég hef þá sérstaklega tekið eftir þessu þegar rætt er um konur sem eru yfirlýstir femínistar.
Skvísa, kyntákn og feministi
Yfirlýstir femínistar koma í öllum stærðum og gerðum og sem betur fer af öllum kynjum líka.
Samt hefur það einhvernvegin alltaf verið viðloðandi femínista að þeir mega helst ekki hafa áhuga á útliti sínu eða á efnislegum hlutum og öll lífsviðhorf þeirra þurfa að samræmast einhverskonar pólitískri rétthugsun svo að viðkomandi fái leyfi til þess að kalla sig femínista.
Þetta hefur verið sérstaklega áberandi þegar kemur að frægum konum en fjölmiðlar hafa keppst við að fá yfirlýsingar frá þeim um hvort þær séu femínistar eða ekki. Sumum konum er tekið opnum örmum í hóp femínista á meðan almenningur sér um að rífa aðrar í sig.
Hver ert þú til að dæma?
Ég hef sjálf gerst sek um að tala niður sumar þessara kvenna við einhver tækifæri (til dæmis hér), ég sé eftir sumu sem ég hef sagt en með þessum pistli núna er ég samt á engan hátt að segja að einhver sé yfir gagnrýni hafinn bara fyrir það eitt að vera femínisti. Það sem ég vil hins vegar gagnrýna er sú tilhneigð fólks til þess að neita konum um það að kalla sig femínista vegna gjörða sem það sjálft telur á einhvern hátt vera andfemínískar.
Beyonce – „Ef henni líður vel í samfellu og netasokkum…”
Queen Bey er líklega sú sem fólki finnst erfiðast að hallmæla enda er hún fullkomin á nær allann hátt (og þá líka í femínískri yfirlýsingu sinni á VMAs (10:25)) en samt sem áður hefur fólk viljað taka af henni femínistatitillinn.
Það ætlaði allt um koll að keyra eftir þetta atriði á Grammys í fyrra…
Þá ekki bara út af textabrotinu “eat the cake Anna Mae” sem vísar í þetta hér….heldur út af því að Beyonce þótti of léttklædd.
Þetta er þema sem er endurtekið aftur og aftur hvað varðar nær allar frægar konur sem eru femínistar.
Það að Beyonce sé femínisti á ekki að þýða að hún þurfi að gefa það upp á bátinn að vera kynvera eða klæða sig í það sem henni líður vel í.
Ef henni líður vel í samfellu og netasokkabuxum þá á það að vera hennar réttur að ganga þannig um hvar sem er án þess að þurfa að hugsa út í það hvaða áhrif það gæti haft á viðhorf fólks til hennar sem persónu.
Því síður á það að minnka framlög hennar til þess að styrkja konur og þess að leggja kvenréttindum lið líkt og hún hefur gert með þessu og hér og hér og hér og hér og hér o.s.frv.
Miley Cyrus – Stuðar og truflar
Miley hefur mikið þurft að berjast fyrir sinni sjálfsmynd þá sérstaklega vegna þess að hún byrjaði sem barnastjarna og átti þess vegna eðlilega aðdáendur sem voru börn. Hún er þó enn í dag, 6 árum síðar, að berjast fyrir því að mega vera hún sjálf án þess að þurfa að taka tillit til þess að hún hafi eitt sinn verið barnastjarna.
Miley hefur verið gagnrýnd fyrir það að “ofur-kyngera” sjálfa sig og aðrar konur.
Fyrir að klæða sig á hátt sem er “truflandi”og sem “stuðar”. Fyrir að nota andfemínískt orðalag og fleira og fleira og fleira. Það er margt sem mér finnst Miley ekki gera rétt í umræðu sinnu um femínisma og meirhlutinn af því kemur fram í þessari frábæru grein hér.
Ég ætla samt að gerast djörf og segja að ekkert af því gefi mér rétt til þess að segja að hún sé ekki femínisti þar sem eins og aðrir “ismar” þá er femínismi sveigjanlegt hugtak þar sem grunnurinn er jafnrétti.
Að auki get ég ekki neitað því að mér finnst Miley algjör töffari að “taka aftur” orðin sem eru notuð til þess að niðurlægja okkur konur líkt og aðrir minnihlutahópar hafa einnig gert, en hún er þó ekki ein um það – hún er bara óhræddari við það en margar aðrar konur.
Nicki Minaj – Sökuð um að ‘ofurkyngera’ sjálfa sig
Ég er búin að vera með þessa grein í vinnslu síðan í byrjun ágúst, að hluta til vegna þess að ég þurfti að velta vel fyrir mér hvernig ég ætti að koma að mismuninum á milli viðhorfs fólks til femínisma Rihönnu, Nicki Minaj og Beyonce og hinna kvennanna sem ég ætlaði mér að fjalla um.
Fyrir nokkrum árum var þessi grein svo birt (sú sama og ég linkaði í hjá Miley) og hún sagði eiginlega allt sem segja þarf. Nicki er eins og Miley oft sökuð um að ofurkyngera sjálfa sig, hvað sem það á svosem að þýða…
Það sem margir virðast hins vegar misskilja við það þegar konur vilja vera kynþokkafullar þá er það ekkert endilega alltaf fyrir aðra, eða fyrir þá einstaklinga sem við höfum kynferðislegan áhuga á.
Eins og Nicki sagði sjálf í viðtali við Blackbook Magazine árið 2001:
“Þegar ég byrjaði að gera þessar skrýtnu raddir, sögðu margir mér að þær væru stórskrýtnar. Þau sögðu: “Hvað í fjandanum ertu að gera?” “Af hverju hljómar þú svona? Mér finnst þetta ekki hljóma sexý” og þá byrjaði ég að segja: “Ó, finnst þér þetta ekki sexý? Gott. Ég ætla þá að gera meira af þessu Kannski vil ég ekki vera sexý fyrir þig í dag.”
Það eiga líklega einhverjir erfitt með að horfa á Nicki Minaj sem femínískt íkon eftir að hafa lagt við hlustir í þessu lagi en í því segir meðal annars:
“Yes I do the cooking/Yes I do the cleaning/Yes I keep the nana real sweet for your eating/Yes you be the (boss) yes I be respecting”.
En án þess að fría Nicki allri ábyrgð þá langar mig samt að benda á það að við ættum öll að vona að sambönd séu aldrei svört og hvít. Í þeim örstuttu og ofurfáu samböndum sem ég hef verið í hefur mig alveg stundum langað til að taka á mig húsmóðurhlutverkið og stjana við hinn einstaklinginn… en það þýðir ekki að ég vilji aldrei að hlutverkin snúist við.
Kim Kardashian – Stolt af sjálfsmyndunum sínum
Ég skal alveg viðurkenna það að ég er enginn aðdáandi Kim Kardashian, eins ástfangin og ég er af Kourtney Kardashian þá er Kim bara ekki minn tebolli.
Það að mér finnist hún ekki neitt svaka spes og það að í mörgum tilfellum finnist mér hún gera eða segja ranga hluti hefur ekkert með það að gera hvort hún sé femínisti eða ekki.
Kim sagði sjálf seinasta sumar að henni líkaði ekki að setja merkimiða á fólk en að hún héldi að fólk myndi kalla hana femínista út frá skoðunum hennar um jafnrétti.
Hún hefur tekið undir það að konur séu óneitanlega hlutgerðar af fjölmiðlum og bætti því við að sjálfsmyndirnar sem hún tæki af sjálfri sér væru meðal annars hennar leið til þess að vinna á móti því: “Ég tók þær. Ég valdi að deila þeim með heiminum. Mér líkar vel við þær. Ég er stolt af þeim. Mér finnst það kraftmikið. Þó það þýði að ég sé að hlutgera sjálfa mig þá er það allt í lagi mín vegna”.
Það er einmitt þar sem munurinn liggur oft og það sem margt fólk skilur ekki, konur, og auðvitað menn líka, eiga að fá að ráða sínu sjálfi sjálfar. Þetta snýst um frelsi.
Marilyn Monroe – Kynþokkafullur ‘hlutur’
Marilyn er líklega sú kona á þessum lista sem flestir tengja við femínisma enda eru mörg ár síðan femínistar fóru að kalla hana “eina úr þeirra liði”.
Það er þá ekki vegna þess að hún sjálf hefði verið yfirlýstur femínisti á meðan hún lifði heldur vegna þess að hún þykir að mörgu leyti vera holdgervingur þess hvers vegna við þurfum á femínisma að halda og þess af hverju hlutgerving kvenna getur haft hrikalega neikvæð áhrif í för með sér.
Lagði hart að sér í vinnu
Alla hennar tíð var komið fram við hana eins og hlut sem hafði þann eina tilgang að vera kynþokkafullur. Það litu fáir upp til hennar sem leikkonu eða listamanns þó til sé fjöldinn allur af frásögnum um það í dag hversu hart hún lagði að sér í vinnu.
Það klappaði aldrei neinn fyrir því hver Marilyn var sem einstaklingur, það snerist allt um afmælissönginn fyrir forsetann, brjóstin á henni eða sykursæta röddina.
Þetta viðhorf til Marilyn er akkúrat andstæðan við það sem femínistar vilja. Skilaboð þeirra eru: Sjáið hvernig fór fyrir Marilyn og hvað gerist þegar heimurinn gerir þig að kyntákni. Ekki láta þetta gerast aftur! (theguardian)
Marilyn er ekki neitað um það að vera femínisti af mörgum í dag en það eru þó enn alltof margir sem líta á hana og sjá bara kyntáknið en ekki einstaklinginn sem hún var.
Rihanna – Sama um húðlitinn á meðan hún syngur og dillar sér
Í gær birtist frábært viðtal við Rihönnu sem hvatti mig til þess að klára loksins að skrifa þennan pistil.
Í viðtalinu segir Rihanna meðal annars þetta um það að vera svört kona:
“Þegar ég byrjaði að finna fyrir muninum -eða þegar byrjað var að leggja áherslu á húðlit minn – var það oftast þegar ég stóð í samningagerð og það endar aldrei. Þetta er ennþá mál í dag og það er þetta sem fær mig til að langa til þess að sýna fólki fram á að það hefur rangt fyrir sér. Ég fæ næstum því eitthvað út úr því að vita hverju þeir eiga von á og ég get ekki beðið eftir því að fara fram úr væntingum fólks.”
Fólki er því sama um húðlit Rihönnu á meðan hennar eina hlutverk er að vera kynþokkafull og að skemmta fólki en um leið og hún vill hafa eitthvað um það að segja hvernig hún skemmtir fólki þá byrja húðlitur hennar og kyn að hafa áhrif. Hún hélt áfram:
“Við verðum að hafa í huga að þetta fólk sem dæmir þig af því þú ert í ákveðnum umbúðum, þau hafa verið forrituð til að halda að svartur maður í hettupeysu þýði að þú eigir að halda fastar um veskið þitt. Fyrir mér eru þetta smærri vandamál, aðstæður þar sem fólk ályktar vissa hluti um mig án þess að þekkja mig, það þekkir bara umbúðirnar sem ég kem í.”
Það að fá að stimpla sig sem femínista snýst því miður oft um húðlit og svartar konur og aðrir minnihlutahópar kvenna hafa því miður alltof lengi verið skildar útundan þegar kemur að umræðunni um femínisma.
Rihanna hefur verið skilin útundan ekki aðeins vegna þess hver húðlitur hennar er heldur líka vegna þess sama og margar hinna kvennanna í þessum pistli, hún er kynþokkafull og hún er ekki hrædd við að bera sig.
Kaldhæðnin í því er svo sú að hún er ötull stuðningsmaður #FreeTheNipple (líkt og Miley Cyrus) sem er mjög femínísk hreyfing svo þessi röksemdafærsla fellur eiginlega um sjálfa sig.
Rihanna gerði svo allt brjálað með tónlistarmyndbandinu við stórsmellinn Bitch Better Have My Money um daginn sem femínistar um allann heim sögðu vera andfemínískt og ofbeldisfullt. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með þeim sem töluðu á móti þessum tilteknu femínistum og byrja á því að hrósa Rihönnu fyrir að byrja myndbandið á Trigger Warning.
Að öðru leyti hef ég ekkert sérstakt út á þetta myndband að setja, í því er mikið ofbeldi eins og í mörgum öðrum myndböndum, í því eru einstaklingar sem eru berir að ofan, eins og í mörgum öðrum myndböndum, í því er augljóslega vitfirrtur einstaklingur, eins og í mörgum öðrum myndböndum.
Við erum bara ekki vön því að myndbönd af þessu tagi komi frá konum. Vissulega höfum við séð einhver töffaramyndbönd frá konum en á þeim er oftast einhver sætur eða húmórískur vinkill. Persónulega var ég bara rosa glöð að sjá Mads Mikkelsen í myndbandinu þar sem hann er alltaf svaka heillandi og fannst svo flott að sjá Rihönnu enn og aftur fara langt út fyrir kassann með það sem fólk býst við af konum.
Það eru alveg örugglega einhverjar konur sem ég er að gleyma í þessari upptalningu en ég vona að skilaboðin komist samt sem áður til skila. Þessar konur sem ég hef talið upp eiga það allar sameiginlegt að vera kyntákn og einhverra hluta vegna vill samfélagið bara halda þeim þannig, – sem líkama sem við fáum að njóta þess að horfa á en ekki sem einstaklinga sem krefjast réttinda og sem hafa eitthvað gáfulegt til málanna að leggja…
Sjálfssagt að vera sexý feministi
Við reiknum bara með, að af því þær vilja vera sætar, hafi áhuga á tísku og finnist gaman að því að vera kynþokkafullar hafi þær ekkert til málanna að leggja og því síður að þær hafi lent í mótlæti.
Þó að vissulega hafi kynjamisrétti alvarlegri afleiðingar á mörgum stöðum öðrum en í skemmtanabransanum þá er skemmtanabransinn þó sá vettvangur sem sem flestir fylgjast með og það gleður mig að sjá að þar eru alltaf fleiri og fleiri konur sem rísa upp og segja frá því mótlæti sem þær þurfa að þola til þess að koma sér á framfæri.
Við höfum þurft að berjast helling fyrir jöfnum launum og almennri virðingu og það ásamt hellings meira, til dæmis ofbeldi og margskonar óréttlæti, er eitthvað sem við þurfum að halda áfram að berjast fyrir.
Bætum því ekki við að konur þurfi að berjast fyrir réttinum til þess að mega vera sexý og hafa rödd á sama tíma. Slíkt ætti að vera sjálfssagt.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.