Ef þú fæddist einhverntíma á árabilinu 1965 til sirka 1980 þá er garanterað að þú manst eftir einhverju af þessum lista. Við Kristín vinkona mín sátum um daginn með sitthvort rauðvínsglasið og rifjuðum þetta dót upp í algjöru kasti. Hrikalega hafa Íslendingar alltaf verið spes. Og enn meira spes er að þessir hlutir voru til á öðru hvoru heimili á landinu. Sjúka þjóð.
Tveggja kílóa sígarettukveikjari
Ekkert millistéttar heimili með almenninlega sjálfsvirðingu var án lúxus marmara sígarettukveikjara sem var svo þungur að það hefði mátt myrða með honum. Kveikjarinn stóð vanalega á stofuborði (enda ekki eitthvað sem þú settir í vasann) við hliðina á enn þyngri öskubakka sem passaði við kveikjarann og þegar mikið stóð til þá var gestum stundum boðið upp á sígarettur úr þar til gerðu boxi eins og sjá má á myndinni t.h.
„Farðu út í sjoppu og kauptu sígarettur skaaan!“
Hver man ekki hinar löngu og virðulegu MORE sígarettur en þetta reyktu konur sem vildu vera skvísur.
More voru langar og mjóar, miklu lengri en Capri, og svo voru þær dökkbrúnar eins og smávindlar. Þú gast fengið bæði menthol og venjulegar en mig minnir að menthol retturnar hafi verið mikið vinsælli.
Önnur sígarettutegund sem nú er grafin og gleymd voru hinar framandi VANTAGE sígarettur. Þær voru ekki bara eins og lafþunnt kaffi (nánast ekkert nikótín) heldur var gat á miðjum filternum.
Asninn sem kúkaði sígarettum
Þetta úrval af allskonar sígarettugræjum var eitthvað alveg sérstakt en þessi asni toppar allt. Þú lyftir halanum upp og þá skaust sígaretta út úr rassgatinu! What? Why?
Reyndar var úrvalið af allskonar partýgræjum mjög sérstakt. Og þó ekki… fólk djammaði auðvitað mikið meira heima hjá sér, skemmtistaðirnir ekki margir og áfengið svakalega dýrt (sumt breytist aldrei). Svo reykti annar hver maður, allsstaðar.
Kynlífs upptakarar
Ég fékk eiginlega smá sjokk þegar þetta furðufyrirbæri rifjaðist upp fyrir mér. Það er akkúrat ekkert eðlilegt við það að á flestum íslenskum heimilum hafi verið til kynlífs upptakarar. Til dæmis Adam og Evu upptakararnir hér á myndunum fyrir neðan:
Adam með vægast sagt lafandi pung og eitthvað svipað má segja um Evu… eða þið vitið. Svo var þetta lagt svona saman og þá voru Adam og Eva að búa til fyrstu manneskjurnar á jörðinni? Eða bara hafa gaman?
Ég man ekki til þess að þetta hafi verið falið eitthvað sérstaklega fyrir börnum. Kannski hafði þetta sænska hippalúkk á hönnuninni áhrif á það? Bara svona kenna börnunum eitthvað um kynlíf um leið og þau opnuðu gosflöskur í afmælum?
Skammbyssu „bagfra“ upptakari
Ef Adam og Evu upptakararnir voru spes, hvað finnst okkur þá um þetta?! Hér erum við að tala um upptakara samfara skammbyssu. Og þegar þú tókst í gikkinn þá skaust tippið á manninum inn í konuna. Og maðurinn er nakinn og með hatt. Konan bara starandi fram fyrir sig. Og hann reyndar líka. Má ekki bjóða þér eina kók?
Þess vel vaxna kona hérna er ekkert í samanburði við byssusamfarirnar að ofan eða hippana Adam og Evu en þennan upptakara var einnig að finna á flestum heimilum og auðvitað ekkert svakalega athugavert við það, fyrir utan að hún er allsber.
Risa ginflaska í rólu
Þetta var svona eitthvað partý fyrirbæri sem sást eiginlega bara heima hjá fólki sem bjó i einbýlishúsum. Flöskurnar voru svona 80 sentimetra háar og því þurfti rólu til að hella úr þessu. Þvílík velmegun. Nóg til!
Sjafnaryndi
Það er ekki hægt að rifja þessa fortíð upp án þess að nefna SJAFNARYNDI. Bók þessi, sem innihélt allskonar samfararáð, var yfirleitt efst í efstu hillunni á efstu hillunni í bókaskápnum en það stöðvaði auðvitað ekki stálpaða krakka og unglingana í að klifra upp og stara svo stóreygir og flissandi á þetta meðan mömmurnar voru í Þórskaffi að drekka vodka í kók og reykja More og pabbarnir á sjónum. Mig grunar að Sjafnaryndi sé svo gott sem ófáanleg hér á landi í dag þó að eitt eintak megi finna á bókasafninu í Dalvík.
Kisutyggjó og mysudrykkurinn Mangó sopi
Ok, mér dettur ekki í hug að jafna Kisutyggjói við Mangósopa enda Kisutyggjóið gott en Mangó sopinn eitt mesta flopp sem komið hefur frá Mjólkursamsölunni.
Planið, (sem var úthugsað af Jóni Óttari Ragnarssyni sem stofnaði Stöð 2) var að koma mysu ofan í börnin en leiðin til þess var að blanda hana með mangó þykkni.
Fyrirbærið var svo selt sem eitthvað ægilega hollt og gott en halló. Börn og mysa? Ekki séns. Kannski upp úr aldamótununum 18-1900 þegar svo gott sem ekkert var til í matinn hérna en að 80’s krakkar hafi verið æstir í mangómysu. Nei. Það gekk ekki.
Myndbandið hér að neðan er reyndar ekki auglýsing fyrir Mangó sopa en ég varð að hafa það með…
Er þetta Frikki Dór þarna á spaðanum??
Kisutyggjóið var til í íslenskum sjoppum í mjög mörg ár. Ég hafði ekki hugmynd en núna þegar ég les á miðann þá sé ég að tyggjóið var framleitt í borginni Halifax á Englandi sem var áningarstaður margra íslenskra sjómanna um árabil. Innflutningurinn hefur mögulega byrjað á tyggjósmygli og þróast út stórtækari aðgerðir.
Á Spaaaáááá-á-niiiiii
Hópferðir til Spánar voru vinsælar í gamla daga og þá var helst farið til Costa Del Sol. Auðvitað lá fólk gersamlega marinerað í áfengi og sólarolíu og ALLIR komu heim bleikrauðir með einhverja minjagripi í töskunni.
Svona senjorítur voru til dæmis mjöööög vinsælar. Þeim var svo stillt upp á besta stað í hillusamstæðunni, kannski sem einhverskonar sönnunargagni á að eigandinn hefði komið til Spánar.
Gyðjan í regninu
Ég man ekki á hvaða heimili ég sá svona lampa, þetta var ekki til heima hjá mér, en þvílíkt góss! Maður starði bara agndofa á þetta. Regnið lak svona mjúklega niður og ljósið lýsti upp dropana. Ég datt auðvitað í algjört nostalgíukast þegar ég rifjaði þessa lampa upp og lagðist í gúggl. Komst að því að þeir kosta alveg helling á Ebay í dag. Þannig að ef þú átt ömmu sem á svona þá í guðanna bænum gríptu gripinn, gerðu við hann og stingdu í samband.
Þá er þessari upprifjun lokið. Endilega skrollaðu og kommentaðu hér að neðan ef þú manst eftir fleiru!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.