Þegar trú og trúarbrögð ber á góma kemur fæstum kynlíf til hugar. Raunin er sú að þessir tveir þættir eru tengdir sterkum böndum þar sem öll menningar og trúarsamfélög heimsins hafa á einn eða annann hátt, afar sterkar kynlífs og kynferðislega tengdar hefðir, hvort sem okkur líkar þær betur eða verr.
Allt frá örófi alda höfum við mennirnir trúað á guð eða guði, hvaða nafni eða nöfnum sem þeir nefnast. Að sama skapi höfum við frá því vorum enn týndir hlekkir stundað kynlíf okkur til ánægju, örvunar og yndisauka.
Þar sem trúarleiðtogar hafa í flestum tilfellum verið þeir aðilar sem setja siðferðileg lög og reglur innan menningarsamfélaga, hefur oftar en ekki myndast ákveðin togstreita á milli þessara tveggja þátta. Siðapostular flestra trúarbragða hafa nefninlega séð ástæðu til að aðskilja sál og líkama og upp úr þessum aðskilnaði hefur keppnin á milli hins guðlega og hins holdlega oft verið afar hörð, þar sem aðskilnaðurinn virðist óhjákvæmilega stangast á við eðli og grundvallarþarfir mannskepnunnar, sem eru jú meðal annars þær að fjölga sér og það kallar á nauðsyn ákveðinna hvata.
Kóraninn gefur grænt
Spámaðurinn Múhammeð lifði hér á jörðu sirka 600 árum eftir fæðingu Krists. Ólíkt feðrum kristinnar kirkju mun Múhammeð hafa haft afslappað viðhorf til kynlífs og kynferðislegra athafna.
Haft er eftir honum að „Alls sem er í veröldinni á að njóta, en ekkert í heimi hér er jafn undursamlegt og góð kona“. Honum var meinilla við skírlífi og bannaði allt munkastúss. Þrátt fyrir þessar reglur sem settar voru af spámanninum sjálfum stunda múslimar skírlífi á Ramadan föstunni og allan tímann á meðan þrammað er í pílagrímsferð til hinnar heilögu borgar Mekka.
Í Kóraninum eru karlar hvattir til að stunda kynlíf og þar sem Kóraninn er fyrst og fremst skrifaður til karlmanna þá er útskýrt sérstaklega fyrir þeim hvernig kynlíf leiðir til aukinnar guðhræðslu.
Múhammeð talar umvöndunarlaust til sveina sinna og segir: „Konurnar eru plógför sem leita í átt til ykkar, svo uppfyllið skyldu ykkar og ræktið jörðina“.
Hinar ströngu, ómannúðlegu og ósanngjörnu reglur sem eru enn við lýði hjá strangtrúuðum múslimum, eins og t.d. að grýta konur sem halda framhjá til dauða, koma ekki úr Kóraninum sjálfum, því líkt og með Biblíuna stendur ekkert í þeirri bók sem mælir gegn ástundun kynlífs. Þetta eru afbakaðar siðareglur sem viðgengust innan vissra hópa á tímum spámannsins og af einhverjum ástæðum, sem erfitt er að setja sig inn í, þá halda siðapostular strangtrúaðra múslima enn í þær.
Fjölkvæni hið fínasta mál
Múhammeð átti sjálfur margar konur og sú tilvitnun sem hvað oftast er vitnað í úr Kóraninum er eitthvað á þessa leið: „Giftu þig eins mörgum konum og þú heldur að þér henti; einni, tveimur, þremur, eða fjórum… Ef þú óttast að þú getir ekki verið sanngjarn við þær allar, þá skaltu aðeins ganga að eiga eina.“
Þetta hefur ýmist verið túlkað af múslimskum körlum sem leyfi eða takmörkun: einn maður, fjórar konur. En þeir trúarhópar innan Islam sem hlynntir eru einkvæni nota gjarnan þessa tilvitnun máli sínu til stuðnings og útskýra að enginn maður nema hinn heilagi Múhammeð, hafi getað verið „sanngjarn“ við fleiri en eina konu í senn.
Laumuhommar og kúgaðar konur
Sú mynd sem er dregin upp í vestrænum fjölmiðlum af samskiptum kynjanna í arabalöndunum er sérlega einstrenginsleg og neikvæð. Kúgaðar konur klæddar í eitthvað sem líkist meira svörtum segldúk en fötum, og karlar með risastór yfirvaraskegg og grunsamlega mikinn áhuga á samveru hver með öðrum, fá okkur til að halda að þeir séu allir laumuhommar og kvenhatarar og konurnar meira eða minna meðvirkir aumingjar sem kunna ekki að berjast fyrir rétti sínum.
Hvort sem þetta er tilfellið, eða afbökuð leið okkar menningarheims til að réttlæta eigin vankanta er ekki gott að segja til um, en eitt er víst að fyrr á öldum, löngu áður en Khomeni fæddist, var kynlífið í arabíulöndunum fjölskrúðugra en listigarðurinn á Akureyri.
Við munum flest eftir því að hafa í æsku heillast af austurlenskum ævintýrum þar sem aragrúinn allur af íðilförgrum konum vöppuðu um í framandi fisléttum klæðum og ekkert sást nema örmjótt nakið mitti og augu eins og tindrandi næturstjörnur á bak við marglitar silkislæður. Þær bjuggu allar saman í risastórum kvennabúrum þar sem vínið flæddi úr gylltum bikurum og öllum virtist takast að lifa einvörðungu á vínberjum.
Kvennabúr
Orðið harem þýðir „hið forboðna“ og er dregið af arabíska orðinu haram, en það orð var einnig notað yfir hluti og aðstæður sem taldar voru heilagar.
Kalífarnir í Baghdad vöktuðu ambáttir sínar af ástríðufullri afbrýðissemi og harðlokuðu kvennabúrunum fyrir utanaðkomandi karlmönnum, hvort sem þeir voru sendlar, viðgerðamenn eða vonbiðlar.
Það að enginn venjulegur maður vissi hvað gekk á inni í kvennabúrunum leiddi eðlilega til þess að margskonar getgátur fengu öflugan byr undir báða vængi:
Voru þetta allt lesbíur sem veltust um í risastórum lesbíu orgíum? Hvað mátti hver og einn kalífi eiga margar konur?
Var hægt að eiga hundrað og sofa hjá þeim öllum samtímis? Hversu falleg var sú fallegasta og hver fékk að sjá hana? Skyldu þær einhvern tímann sleppa út?
Konan sem ekki er hægt að fá
Frægustu listamenn heimsins eru meðal þeirra sem hafa velt vöngum yfir því hvernig um er að litast inni í kvennabúri. Heimsfræg bókmenntaverk eins og Nætur í Arabíu og Þúsund og ein nótt -og málverk eftir m.a. Matisse og Ingres, eru meðal þeirra menningarverðmæta sem sækja innblástur í hin harðlokuðu, heilögu og forboðnu Harem. Konan sem eyddi dögum sínum og nóttum í Hareminu var dulúðin holdi klædd.
Þar af leiðandi stóð hún fullkomlega undir hugmyndinni um hið myrka, óþekkta og ókannaða eðli konunnar. Fegurð hennar, gáfur og útgeislun urðu viðfangsefni ómældra vangaveltna og á áttundu öld hafði tilvist kvennabúranna komið af stað nýrri tísku í ljóðagerð, þar sem viðfangsefnið var ómögulegt ástarsamband, eða ást á manneskju sem ekki nokkur leið er að fá.
Þegar kvikmyndirnar voru að slíta barnskónum í upphafi síðustu aldar var þetta afar vinsælt umfjöllunarefni. Sögurnar af Sindbad sæfara sem þreytti marga viðureignina við m.a illa kalífa voru á aftur og aftur á topp tíu listanum yfir vinsælustu myndirnar og fyrsta kvennagulli kvikmyndanna, Rudolf Valentino, tókst að fá kvenfólk til að renna til í bíósætunum, með karlmannlegri túlkun sinni á hetju sem bjargar hverri fegurðardrottningunni á fætur annari úr rammgerðum kvennabúrum.
„Boy’s only“
Í Kóraninum er talað um tvo staði sem koma til greina sem vistarverur í lífinu eftir dauðann. Annað himnaríkið ætlað börnum, körlum og konum, þar sem þau koma sem fjölskyldur ef þeim hefur tekist að halda vel í trúnna á meðan lifað var. Þar er hamingjusömu fjölskyldulífinu haldið áfram þar til enginn nennir lengur að telja.
Hinn staðurinn minnir á Valhöll víkinganna þar sem hann er „boy’s only club“ og móttökunefndin skipuð „fríðum flokki ungra kvenna með björt augu og digran barm“.
Ætli Hugh Hefner sé þá kannski bara óþolinmóður múslimi?
Lestu hér grein sem ég birti síðasta laugardag um kristindóminn og kynlíf.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.