…Af flengdum leðurblökum, lífstykkjum og latexi.
Finnst þér æsandi að láta slá á rassinn á þér? Finnst þér heit hugmynd að láta binda þig? Binda fyrir augun á þér? Finnst ykkur gaman að vera skömmuð?… ÓÞEKKA stelpa! Vondi strákur!
Eða dreymir þig kannski um að horfa niður til undirgefinnar manneskju sem sleikir skóna þína meðan þú drekkur freyðivín í mestu makindum? Og þegar þú horfir á rass, ertu þá að pæla í því hvernig sé best að flengja hann? Finnst þér lakkrís betri en vanilluís? Horfðiru á Star Wars út af Svarthöfða en ekki Luke Skywalker? Eiga hælar aldrei að vera undir tíu sentimetrum? Áttu svart leðursófasett? Myndi það eiga vel við þig að nota aðra sem húsgögn. T.d. skemil og stól? Eða langar ÞIG kannski til að vera mennskt húsgagn? Húðgagn.
Ef þú svarar öllum þessum spurningum játandi, og finnur jafnvel svita í lófunum, þá eru 97,7% líkur á því að þú sért leðurblaka, sadó-masó, bé-dé-ess-emmari og ef svo er…þá er um að gera að koma út úr skápnum því þetta er menningarheimur út af fyrir sig og í þessum hópi er að finna allskonar fólk af öllum stéttum og stigum. Fólk sem á það eitt sameiginlegt að hafa unun og yndi af leðri, sem og valdaleikjum í því sem það kallar kynlíf.
Hver flengdi fyrst?
Fólk hefur eflaust alltaf haft gaman af einhverskonar valdaleikjum í einhverri mynd, þar sem mannskepnan hefur ekki mikið breyst í megindráttum frá því hún þróaðist úr apa í mann en það voru nú samt tveir aðalsmenn sem með athæfi sínu gáfu þessari menningu nafn. Þetta voru þeir austurríski rithöfundurinn, Leopold Von Sacher Masoch, og greifinn Marquis de Sade. Leggðu nöfn þeirra saman og út kemur Sado-Maso, eða Sade og Masoch.
Hver var de Sade?
Donatien-Alphonse-François de Sade fæddist 2. Júní 1740 í París og var af miklum aðalsættum. Hann lifði nokkuð hefðbundnu lífi og lét lítið fyrir sér fara sem pervert þar til hann gifti sig árið 1763 en þá var eins og fjandinn hlypi upp í manninum, svo illa fór þetta hjónaband í hann.
Hann byrjaði að vesenast í vændiskonum og reka hvern skandalinn á fætur öðrum sem oftar en ekki enduðu með því að hann var handtekinn.
Eftir að hafa sofið nokkuð margar nætur í hálmhrúgum á fangelsisgólfum var hann gripinn við svo sóðalegan pervertisma að mönnum þótti nóg um og árið 1772 var hann dæmdur til dauða. Dauðarefsingunni var þó ekki framfylgt heldur slapp kauði og flúði til Ítalíu þar sem hann hélt áfram með uppteknum hætti. Honum var síðan margítrekað sparkað aftur í fangelsi og að lokum á geðveikrahæli þar sem hann endaði sína daga árið 1814, en alls er talað um hann hafi verið í 27 ár í fangelsi.
Þegar hann sat í fangelsinu skrifaði hann hverja bókina á fætur annarri sem þóttu svo ógeðslegar að þær fengust ekki birtar. Í þessum bókum lýsti hann ofbeldisfullu kynlífi sem enn gengur fram af sumu fólki, jafnvel þó þær séu ritaðar fyrir nokkuð hundruð árum. Í lýsingunum var það hann sjálfur sem drottnaði yfir fólki og rak það út að endamörkum sársaukans með kynferðislegum athöfum, sjálfum sér til skemmtunar og þaðan kemur heitið að vera sadisti. Í dag eru þó flestir bókmenntafræðingar á einu máli um að greifinn gamli hafi fyrst og fremst verið uppreisnarseggur sem hafði unun af að ögra samferðafólki sínu.
Hann hafði einnig megnustu andúð á allri ritskoðun og forræðishyggju og margir vilja meina að markgreifinn hafi verið hugrakkur og djarfur að stíga fram með hvatir sínar á þessum guðhrædda tíma.
Hver var Chevalier Leopold von Sacher-Masoch?
Hann var til dæmis andlegur lærifaðir Rex Van De Kamp, sem lék manninn hennar Bree í Desperate Housewifes og þegar Von Sacher-Masoch skrifaði bókina Venus í Pels fengu undirgefnir og aðþrengdir eiginmenn fyrst eitthvað almennilegt að lesa.
Margir kannast við samnefnt lag með hljómsveitinni Velvet Underground þar sem textinn gengur út á þrá hins undirgefna Severin til fröken Vöndu sem gekk um í háum stígvélum og pels, danglaði Severin inn á milli og niðurlægði hann á ýmsan hátt. Eða eins og segir í laginu góða með Velvet Underground:
Kiss the boot of shiny, shiny leather
Shiny leather in the dark
Tongue of thongs, the belt that does await you
Strike, dear mistress, and cure his heart
Söguhetjan Severin var í rauninni Masoch sjálfur en hann kom sér á spjöld mannkynsögunnar fyrir að opinbera löngun sína til kvenna sem prómineruðu um í þröngu lífstykki, háum stígvélum og jafnvel loðnum og þykkum pels.
Þessi löngun hans til að vera kynferðislega undirgefinn var síðar skírð í höfuðið á honum og kölluð Masókismi. Masókismi hefur þó fleiri en eina hlið og fleiri en eitt stig og masókistar eru ekki allir eins eða allir fyrir það sama. Sumir vilja kannski bara láta smella létt á bossann á sér meðan aðrir fíla það að hanga á hvolfi, klæddir í leður frá hvirfli til ilja með straujárn frá árinu 1974 í pung og geirvörtum.
Ætli það megi ekki gefa svona sadó-masókisma skala frá einum upp í tíu?
1 er að vilja láta smella á bossann, eða smella á annarra manna bossa, 10 er að vilja hanga á hvolfi með lóð í pungnum/eða langa til að hengja aðra á hvolf og festa heimilistæki í punginn.
Flestir ess-emmarar, alveg frá einum upp í tíu, eiga það þó sameiginlegt að fíla leður og latex og finnast það vera kynæsandi efni með meiru. Þess vegna er algengt að þetta fólk hópi sig saman og spóki sig um í leðri, gúmmíi eða öðru sem er þröngt, nokkuð óþægilegt og vel glansandi og þar með erum við komin með jaðarhóp sem kennir sig við fetisma.
Leðurblökur nútímans. Heimur bestnandi fer.
Málgögn leðurblaka og hlekkjalóma hafa komið út opinberlega svona um það bil frá árinu 1930. Á þeim tíma þótti þetta enn ofsalega sjúk hegðun og leðurblökurnar urðu að fara varlega með kenndir sínar til að vera ekki lokaðar inni á hæli eins og langafi allra sadó masókista, herra de Sade.
Í dag þykir það þó ekkert sérstakt tiltökumál að vera sérstaklega fyrir leður, flengingar eða annað í þessum dúr. Leðurblökur geta flestar verið opnar með sínar hneigðir, haldið sérstök leðurblökumót, farið á leðurblökubari og notið úrvals af lestrar og myndefni sem er sérstaklega tileinkað leðri og ess-emmi. Meira að segja hér á klakanum hafa gagnkynhneigðar leðurblökur hópað sig saman um áhugamálið en fyrir mörgum árum fór heimasíða íslenskra bédéessemmara í loftið – www.bdsm.is.
Samkynhneigðar leðurblökur hafa reyndar lengi vel iðkað sitt áhugamál hérlendis, en í mörg ár var sérstakur karlaklúbbur starfandi í bakhúsi í Ingólfsstræti þar sem karlar komu saman til að flengja og vera flengdir. Kannski ekki furða. Eftir að hafa komið út úr einum skáp hljóta næstu skápar að vera minna mál.
Allskonar fólk
Leðurblökur eiga það ekki lengur á hættu að vera læstar inni á geðveikrahælum í spennitreyju með hjálm fyrir það eitt að perrast. Læknar, strætóbílstjórar, forritarar, barnaskólakennarar, fóstrur og fyrirsætur… allskonar fólk flokkast í þennan litla jaðarmenningarhóp sem virðist fara sístækkandi og þá sér í lagi eftir að 50 Shades of Gray kom fyrst í bækur og bíó eins og varla hefur farið framhjá nokkurri manneskju, þó allir hafi kannski ekki sama áhugann.
Fæstir nenna að hneykslast á þessu á okkar umburðarlyndu tímum enda viðhorfið í samfélaginu nokkurn veginn þannig að fólk má gera það sem það langar til, svo lengi sem það er ekki að troða því upp á þá sem vilja ekkert með það hafa.
Byrjunargræjur fyrir upprennandi BDSM sérfræðinga
Fatnaður
- Leðurbuxur
- Leðurbolur
- Lífstykki
- Leðurstígvél með minnst 8 sentímetra hæl
- Leðuraxlabönd
- Leður lögguhúfa
- Leður nærbuxur
- Gúmmígalli
- Reipi
- Pels
- Hælaskór
- Mellubönd
- Hundaólar
Orðaforði
- Fyrirgefðu frú skólastýra
- Fyrirgefðu herra
- Óþekkur strákur!
- Óþekk stelpa!
- Kysstu stígvélin mín!
- Skammastu þín!
Tónlist
Allt sem er nógu dramatískt.
Bíómyndir
- Story of ‘O’ Batman
- Justine
- Catwoman
- Star Wars
- Quills
- Secretary
- 50 Shades of Gray
Húsgögn
- Gapastokkur
- Keðjur og kaðlar
- Leðursæng
- Leðurkoddi
- Hengilás
- Svipa
- Búr
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.