Hvað er málið með allt þetta stóra? Af hverju á sumt að vera stórt en annað lítið? Hversvegna er “betra” að vera með stór brjóst en lítil og hvað er þetta með stóru tippin?
Ef taka má mark á öllum þessum “increase your penis size” póstum sem karlmenn (og konur) fá er hægt að draga þá ályktun að nútíma karlmaðurinn þjáist af tipparexíu –og það er kannski ekkert skrítið. Langflestir karlmenn horfa á (eða hafa horft á) klámmyndir og það er vitað mál að klámmyndir eru ýkt form af því sem við paufumst við að gera í heimahúsum með misjöfnum árangri.
Karlar sem eru ráðnir til starfa hjá klámmyndaframleiðendum þurfa ekki að sýna CV þegar þeir sækja um vinnu. Nei, þeir þurfa að losa beltið og girða niður um sig og ef það sem við blasir er nógu ýkt, og getur haldið aftur af sér eða brugðist við þegar leikstjórinn æpir NÚNA, þá er hann oftar en ekki ráðinn.
Þessir menn eru ekki dæmi um eðlilegan niðurvöxt karlmanna, ekki frekar en konur sem eru með risastór brjóst frá náttúrunnar hendi. Þessir menn fá þessar vinnur, einmitt af því þeir eru svona skapaðir og leikstjórarnir sækjast eftir því að fá þá í vinnu vegna þess að klámmyndir eru næstum því eins og teiknimyndir; ofur ýkt og brengluð dæmi um eitthvað sem á örsjaldan við rök að styðjast í raunveruleikanum.
Útlits þráhyggja
Það að karlmenn skuli upplifa óöryggi út frá risatippunum sem þeir sjá í kláminu er svipað þyngdarþráhyggjunni sem konur fá þegar þær fletta Vouge, horfa á Friends, Sex in the city og fleiri sjónvarpsþætti sem eiga að móta hugmyndir okkar um lífið. Þar eru allar konurnar mjóar og léttar, sætar, með fullkomna húð, fullkomið hár og bros sem lýsa í myrkri. Þessar konur verða ósjálfrátt fyrirmyndir kvenna og lífstíll þeirra verður fyrirmyndarlífstíll.
Ef sjálfsmyndin er ekki nógu skýr, eða metin í öðru en útlitinu, getur verið hætt við því að konur fái áhyggjur að þær séu ekki “gjaldgengar” og við tekur allskonar basl við vigtina með tilheyrandi líkamsræktarbaráttu. Skrokkurinn á að vera mjór, rassinn lítill, varirnar stórar, handleggirnir grannir og brjóstin…?
Já – Hvað með brjóstin?!
Stór brjóst hafa alltaf haft einhverskonar dularfull áhrif. Stór brjóst eru móðurtáknið mikla en um leið valdamikið kynferðislegt aðdráttarafl. Ef barmmikil kona fer út að skemmta sér og sér til þess að barmurinn gægist upp úr “wonder” brjótstahaldaranum og fleginni blússu, er vitað mál að fleiri karlmenn eiga eftir að gefa sig á tal við hana heldur en ef hún skellti sér út í víðum rúllukragabol. Það fyndna er að á meðan þeir tala við hana eiga þeir í mesta basli með að halda augunum frá boltunum tveimur sem kíkja upp og segja góðann daginn!
Tuttugu árum síðar var það orðið töluvert algengt að berbrjósta dansarar í Ameríku sprautuðu sílikoni í brjóstin á sér en fljótlega fór að bera á allskonar leiðinlegum aukaverkunum.
Stór brjóst eiga það líka til að gefa skemmtilegt samspil við mjaðmirnar og þar kemur inn þetta fræga 90-60-90 mál sem Marilyn okkar Monroe var víst með. 90 í brjóstamál, 60 í mittismál og 90 í mjaðmamál. Mjaðmirnar eru aftur merki um barnsburð og móðurhlutverkið og þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það þessar frumhvatir sem knýja karlmenn þegar þeir leitast við að stunda samræði þrátt fyrir að margar konur telji sér trú um að þeir séu að leita að Ally McBeal.
Heimurinn sem tók sílikoni fagnandi
Talandi um frumhvatir. Það er ekkert nýtt að stór barmur heilli. Brjóstalitlar konur hafa alla tíð reynt allskonar aðferðir til að stækka á sér brjóstin en það var ekki fyrr en upp úr seinni heimstyrjöldinni, þegar framfarir í meðhöndlun og vinnslu sílikons áttu sér stað, að japanskar vændiskonur tóku upp á því að sprauta sílikoni í brjóstin á sér til að reyna að heilla bandaríkska hermenn, sem voru eins og margir vita bergnumdir af stórum brjóstum með brjóstamiklar dömur málaðar á flugvélarnar hjá sér og myndir af þeim upp um allt. Sílikon var á þessum tíma mikið notað til margskonar hluta. Meðal annars sem sleipiefni, til einangrunar og margt fleira og því auðvelt að nálgast það.
Japönsku vændiskonurnar skiluðu aldrei fréttum af því hvernig gekk með nýju brjóstin (nema kannski til annara japanskra vændiskvenna), en gera má það ráð fyrir því að þetta hafi ekki alveg gengið upp hjá þeim vegna þess að enn tók nokkra áratugi að finna almenninlega út úr því hvernig best væri að standa að brjóstastækkunum.
Tuttugu árum síðar var það orðið töluvert algengt að berbrjósta dansarar í Ameríku sprautuðu sílikoni í brjóstin á sér en fljótlega fór að bera á allskonar leiðinlegum aukaverkunum. Sílikonið hélst ekki í brjóstunum heldur fór að leka út í líkamann með miður geðslegum afleiðingum; brjóstin hörnuðu og líkamsvefir mynduðu kekkjótta vefi utan um sílikonið, í þetta komu sýkingar sem urðu til þess að það þurfti að fjarlægja brjóstin og svo framvegis. Afleiðingar sem við höfum flestar heyrt af.
Það er ekki fyrr en á síðustu tíu árum að tekist hefur að búa til brjóstafyllingar sem reynast hættulausar og afleiðingarnar – Konur af öllum stigum og stéttum flykkjast undir hnífana og kasta höldurunum. Lýtalæknar segja okkur að í dag séu fleiri hundruð íslenskar konur á öllum aldri með sílikon fyllingar í brjóstunum og á síðasta ári voru framkvæmdar 300.000 slíkar aðgerðir í Bandaríkjunum.
Tipparexía?
Aftur að getnaðarlimunum? Það er vitað mál að stór tippi veita ekki meiri kynferðislegan unað en þessi venjulegu (sem eru 15-16 cm að lengd í reisn). Þau geta heillað suma útlitslega, eins og stóru brjóstin, en það hefur hingað til ekki verið sannað að þau gefi meiri sælu.
Þegar þeir fara í sturtu í sundi eða ræktinni skima þeir í kringum sig til að skoða hina strákana og upplifa vellíðan þegar þeir sjá vel vaxna menn með minni limi en þeir sjálfir
Í það minnsta er ekkert um það að finna í neinum kynlífsfræðum sem rituð hafa verið til dagsins í dag. Þrátt fyrir þessar bláköldu staðreyndir og þá endalausu tuggu að stærðin SKIPTI EKKI MÁLI eru til tugþúsundir karlmanna sem eru alls ekki ómyndarlegir, eiga jafnvel fallega hamingjusama fjölskyldu, eru poppstjörnur, sjónvarpsstjörnur, bankastjórar og módel en það eina sem kemst að hjá þeim er að þeir vilja hafa STÆRRA TIPPI, STÆRRA TIPPI, STÆRRA TIPPI!
Þegar þeir fara í sturtu í sundi eða ræktinni skima þeir í kringum sig til að skoða hina strákana og upplifa vellíðan þegar þeir sjá vel vaxna menn með minni limi en þeir sjálfir, en finna vanmáttinn renna niður hrygginn og leka á milli lappanna þegar þeir sjá að stóru hönkarnir eru ekki bara stórir heldur líka með stór tippi! Það skrítna er að menn með tipparexíu þurfa ekki einu sinni að vera með lítil tippi, það er nógu slæmt fyrir þá að þau séu bara venjuleg. Venjulegt er ekki nógu gott fyrir þá. “Því stærra því betra” hugsa þeir um leið og þeir tjakka upp jeppann, setja ofurdekk undir, hækka í bassanum, kaupa sér 60 tommu sjónvarp og hús með 70 fermetra bílskúr.
Er hann héri, hestur eða naut?
Í Kama Sutra, sem eru ein elstu kynlífsfræði heims, er talað um stærðir og lögun kynfæra. Það er vitað mál að útlitslega séð, og í grófum dráttum, eru kynfæri okkar í flestu lík; Konur eru með innri og ytri barma, sníp og op, karlar eru með tippi og pung, kóng og forhúð. Stærð, litur og lögun kynfæranna er hinsvegar misjöfn og þetta verður fólk bara að sætta sig við (nema það sé eitthvað einstaklega vanskapað en þá er hægt að fara undir hnífinn).
Kama Sutra skiptir líka fólki niður í dýrategundir eftir því hver stærð kynfæranna er. Karlar eru annaðhvort hérar, naut eða hestar og konur eru, miðað við dýpt legganganna; dádýr, meri eða fíll. Þetta segir okkur að héramaður og dádýrskona ættu að passa vel saman og hestamaður og fílskona gætu komist á gott flug út frá stærðunum. Samkvæmt Kama Sutra eiga því menn sem eru með stór tippi að reyna að finna sér konur með stórar píkur og öfugt til að kynlífs unaðurinn verði sem mestur og bestur. Ef við færum eftir þessu, og allir væru búnir að vinna mikið í sér, óhemju opnir og komplexalausir þá gæti venjuleg viðreynsla hljómað nokkurnveginn svona:
“Sigrún, mér líst ansi vel á þig. Finnst þú skemmtileg og klár og sæt, en ertu nokkuð með stóra píku? Ég er nefninlega með frekar lítið tippi sjálfur.”
Furðulegt? Já, frekar. Við hugsum og tölum nefninlega nærri því ekki eins mikið um stórar eða langar píkur og við hugsum um stór eða löng tippi og gerum sjaldan tengingar þarna á milli.
Falin á milli fótanna
Reyndar hafa píkur verið miklu meiri tabú í gengum tíðina en tippi, enda huldar á milli læra en ekki hangandi framan í heiminn eins og limirnir.
Konur fá ekki tölvupóst þar sem fyrsta setningin er “increase the size of your vagina” ásamt tilboðum um strekkingartól eða pillur svo að stóru tippin passi. Samkvæmt karlafræðum eiga píkur bara að vera litlar, nettar og þröngar og svo nær það ekki lengra. Víð píka þykir ekki fín píka, en þröng er hið besta mál. Gæti það verið vegna þess að þá finnst þeim eins og tippið sé stærra og þeir um leið “meiri” karlmenn?
Flestar konur kjósa venjuleg tippi þar sem flestar konur eru með venjulegar píkur. Mörgum konum finnast líka stóru tippin vera heilmikið vesen. Það er vandræðasamt að stunda munnmök, kjálkinn tognar hálfpartinn. Í samförum á hann það til að rekast upp í kvið og sumar stellingar verða hreinlega sársaukafullar.
Konur sem eru með stórar píkur eru hinsvegar ákaflega hrifnar af stórum tippum þar sem það er erfiðara að fylla upp í það sem stórt er. Hver kannast ekki við söguna af bóndanum sem mjaðmabraut sig við að reyna að hafa mök við belju. Beljan fann að það var einhver lítill rindill að vesenast aftan í henni, langaði í meira og fór að þrýsta afturendanum að bóndanum. Á endanum varð hún svo þurfandi að hún slengdi honum utan í vegg með þeim afleiðingum að hann mjaðmabrotnaði.
Stór kona = Stór píka
Stórvaxin vinkona mín sagði mér að henni þætti best að láta manninn sinn koma inn í sig aftanfrá af því þannig fyndi hún mest fyrir honum. Sama kona hampaði líka stórum tippum og viðurkenndi um leið blygðunarlaust að hafa frekar stóra píku, enda er hún rúmlega 1,80 sentimetrar. Fyrst stórar konur eru frekar með stórar píkur heldur en hitt, er þá ekki hægt að álykta að fyrirsætur séu flestar með stórar píkur? Þær eru jú flestar um 1,80 sentimetrar á hæð eða meira og þar af leiðandi með langt bak, langa útlimi og jú… langa píku. Victorias Secret verður að einhverju öðru leyndarmáli ef maður gefur þessari hugsun lausann tauminn.
Hættum að kvarta
Kannski er það vegna þess hversu hulin píkan er að konur standa ekki í þessum skrítna samanburði. Reyndar fara unglingstúlkur oft að velta því fyrir sér hvort píkan á þeim sé “venjuleg” þegar þær taka eftir því að á sumum gægjast innri barmarnir út en á öðrum ekki en fljótlega komast þær að því að píkur eru af öllum gerðum og þar með hætta pælingarnar hjá flestum. Hégómi sem felst í því hvort hún sé “nógu löng” eða “nógu þröng” verður því fyrirferðarminni þegar til lengri tíma er litið, enda kannski ágætt að kynfæri kvenna fái grið frá annars óendanlegri útlitsþráhyggju samtímans.
Ef við værum raunsæjari með þessi tippa, píku, brjósta og útlitsmál þá myndum við eflaust samþykkja það þegjandi og hljóðalaust að allir eru einstakir og þar á meðal kynfæri okkar og líkami. Sumu er reyndar hægt að breyta svo að útkoman verði góð, en það verða alltaf einhverjir hlutar af okkur sem verður ekki breytt svo að vel sé. Tippi eru þannig gerð af náttúrunnar hendi að það er nánast vita vonlaust að ætla sér að stækka þau með skurðaðgerðum eða öðru. Þessvegna er hættulegt fyrir menn að vera að miða sig við klámmyndaleikara eða aðra sem labba um með reðurinn lafandi niður að hnjám.
Klámmyndaleikarar og tískufyrirsætur vinna störfin sín útlitsins vegna og við hin sem vinnum öllu hefðbundnari störf eigum að gera okkar besta í því að miða okkur ekki við þetta fólk. Sættumst bara við okkur eins og við erum. Strákar; elskiði vininn eins og hann er og ekki miða hann við aðra vini.
Stelpurnar elska ykkur eins og þið eruð og í stað þess að fókusera svona á stærðina, reynið frekar að æfa ykkur í listinni að elska konu með líkama, sál og hjarta og hættið að kvarta!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.