Það er fátt sem truflar stemmninguna í bólinu meira en stress yfir því að halda ekki reisn.
Auðvitað geta verið líffræðilegar ástæður fyrir því að kærasti þinn/maki/vinur haldi ekki reisninni þar til ballið er búið en oftast eru ástæðurnar á milli eyrnanna, en ekki fótanna -eða í níu af hverjum tíu tilfellum.
Efasemdir um eigin frammistöðu eru fljótar að koma sér úr kollinum og niður á milli lappanna. Stundum lendirðu í þessu þegar þú sefur hjá honum í fyrsta sinn, stundum hafið þið oft verið saman en alltaf gerist þetta. Um leið og hann byrjar að hafa áhyggjur af því að standa ekki, eða halda reisninni, getur hann orðið klaufalegur eða gleymt að gera það sem kemur þér til. Hann getur líka orðið of annars hugar og upptekin af þessu til að yfirleitt finna fyrir atlotum þínum… og þú veist hver niðurstaðan verður.
Þegar þú finnur að hann byrjar að stressast upp skaltu hvetja hann til að taka sér pásu, tala við þig, segja þér hvað hann er að hugsa, hvað er að trufla hann… hvers vegna þessi kvíði? Allir karlmenn lenda í þessu á einum eða öðrum tímapunkti og viðurkenning þín og skilningur á eftir að vera honum mikils virði. Í 99% tilfella mun slakna á stressinu við það eitt að slaka á taumnum.
Þú getur lagt þitt af mörkum með því að hughreysta hann, róa hann niður, og losa um spennuna. Og ef þér tekst ekki í fyrstu tilraun, reyndu þá aftur, og aftur, og aftur. (Og aftur).

Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.