Kynlíf eða samlíf hjóna er umræðuefni sem er ekki tekið fyrir á kaffistofunni þar sem ég vinn.
Flestir telja kynlíf vera það allra persónulegasta sem maður gerir og er kannski engin furða að maður komi ekki í vinnuna á þriðjudegi og segi: “Mikið rosalega var maðurinn minn góður í rúminu í gær”, nei við tölum frekar um að passa í kjólinn fyrir jólin eða hvað við ætlum að elda á aðfangadagskvöld.
Þar sem kynlíf er ekki rætt koma sjaldan upp spurningar eins og:
- Hversu oft geriði það á viku ?
- Farið þig í leiki í rúminu ?
- Ertu alltaf til í tuskið ?
En þegar ég er að horfa á Greys Anatomy, Private Practice, Desperate Housewifes og fleiri þætti get ég ekki annað en leitt hugann að því hvort hjónabönd í raunveruleikanum eru virkilega upp til hópa með þessa svakalegu kynferðislegu spennu eins og er sýnd á sjónvarpsskjánum.
Tökum Greys Anatomy til dæmis. Þátturinn fjallar um lækna og læknanema sem vinna daginn út og daginn inn. Á milli þess sem þau eru að vinna, eða drekka bjór á pöbbnum þá eru þau að reyna við hvort annað, læðast inn í kústaskáp, njóta heitra ásta eða tala um kynlíf.
Private Practice er svipaður, hópur af læknum sem flörta í lyftunni, kyssast á milli hæða, halda fram hjá við hið minnsta og eins og í fyrri þættinum, velta sér upp úr kynlífi allan daginn.
Er þetta svona í raunveruleikanum? Er fólk bara alltaf til í tuskið. Gift í 10 ár, komin með tvo til þrjá krakka, vinnandi allan daginn en er samt að koma að einum stuttum í lyftunni, bíðandi heit upp í rúmi eftir hvort öðru á hverju kvöldi, eða með öðrum (grófum) orðum, alltaf með opið þegar annar aðilinn vill það og skiptir engu máli hvort klukkan sé 10 um kvöld eða 10 að morgni.
Það er alltaf verið að tala um að fjölmiðlar séu að gera óraunhæfar kröfur á fólk að vera svona eða hinssegin í holdum og útliti. Væri kannski líka lag að ræða þessa kynferðislegu löngun sem allir eru með í sjónvarpinu og þrýstinginn sem þetta kallar fram í samböndum um að báðir aðilar eiga alltaf að vera tilbúnir og til í tuskið, sama hvað!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.