Þú ert kannski í góðu sambandi og kynlífið fjörugt og kryddað en stundum viljum við frekar vel undirbúna og ljúfa stund í bólinu með elskhuganum en hamagangs-kynlífs hér og nú.
Ljúft kynlíf felst nefnilega jafnmikið í því að tjá tilfinningar sínar og fá andlega fullnægingu líka. Hér koma nokkrar hugmyndir til að gera gott kynlíf betra og vanafast kynlíf ljúfara.
1. Undirbúðu leikinn
Það getur verið mjög kynþokkafullt að eyða löngum tíma í forleikinn en svo það sé mögulegt, er best að þú að stjórnir hraðanum. Hann er líklegri til að missa stjórn á hlutunum… Segðu honum að hann megi bara gera við þig það sem þú gerir við hann. Þar með stjórnar þú öllum forleiknum fullkomlega.
2. Smáatriðin skipta máli
Að veita smáatriðum athygli skiptir máli í kynlífinu eins og annars staðar. Læddu höndinni í lófa hans meðan á mökunum stendur eða biddu hann um að halda um fætur þínar, ef þér er kalt. Slíkt lætur í ljós umhyggjusemi og ást og sýnir að þið eruð ekki bara að sofa saman til þess að fá líkamlega fullnægingu heldur einnig til þess að tjá tilfinningar.
3. Taktu áhættu
Brjóttu þér leið úr viðjum vanans og bryddaðu upp á einhverju nýju. Kysstu hann á nýja staði og biddu hann að kanna líkama þinn upp á nýtt.
4. Haldið augnsambandi
Mjög margir loka augunum á meðan samförum stendur en er ekki kominn tími til að prófa að hafa augun opin allan tímann; alveg frá því þið byrjið að klæða hvort annað úr? Augun eru jú spegill sálarinnar og geta því sagt ykkur heilmikið.
5. Veittu andlitinu athygli
Andlitið er mjög næmt gagnvart allri snertingu en það gleymist oft í kynlífinu. Það getur verið mjög ljúft að vera þakin kossum. Þú getur líka kysst hann löngum kossum á eyrun, hálsinn, augun og í raun hvar sem er á andlitinu. Það er einfaldlega eitthvað sérlega ástúðlegt við kynlíf þar sem andlitið skiptir máli.
6. Byggðu upp sjálfstraustið
Sumar konur slaka aldrei almennilega á og njóta þar með ekki kynlífsins til fulls, því þær eru svo uppteknar af því hvernig líkami þeirra lítur út. Hættu að hafa áhyggjur af nokkrum aukakílóum hér og þar, litlum eða stórum brjóstum eða framstæðum maga. Ef þú ert í góðu sambandi elskar hann þig eins og þú ert. Sennilega fara svona áhyggjur af útlitinu í taugarnar á honum þegar þið eruð komin í rúmið og geta skemmt fyrir.
7. Andleg fullnæging
Mörgum hættir til að einblína um of á tölfræðina, ef svo má segja, þegar kynlíf er annars vegar; þ.e. hversu oft við sofum saman, hversu langan tíma það tók og hversu oft fékk fengum við fullnægingu. Hættu að hugsa svona vélrænt um kynlífið og veittu andlegu hliðinni meiri athygli. Ljúft kynlíf gengur jafnmikið út á andlega fullnægingu og þá líkamlegu.
8. Ástaratlot á almannafæri
Þá erum við ekki að meina einn stuttan í bílnum eða inni á klósetti. Verið ástúðleg hvort við annað hvar sem er; í bókabúðinni, bankanum eða veitingastaðnum. Lítil snerting eins og góður koss á hálsinn eða þétt faðmlag getur verið upphafið að forleiknum. Forleikurinn þarf ekki að hefjast í svefnherberginu. Hann getur hafist mörgum tímum fyrr … þess vegna í Melabúðinni eða í biðröðinni í Nettó!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.