Kynlíf, hvort sem er á milli kærustupars, elskenda eða hjóna sem hafa verið saman svo öldum skiptir er að margra mati límið í samabandinu.
Ef kynlíf er ekki stundað reglulega er hætt við að það myndist systkinabragur á sambandinu ykkar og hann eykst vanalega eftir því sem þið farið sjaldnar saman að rækta ástargarðinn. Þá verður pirringurinn jafnframt meiri því ekkert “slökunarlyf” virkar í raun jafn vel og gott og náið kynlíf.
Hér eru nokkur heilræði sem hafa reynst Bellu vel í leikjum ástarinnar. Galdurinn er að skapa nánd og nærveru og vökva með henni sambandið ykkar svo það blómstri betur.
1. EFTIRVÆNTING
Eftirvænting er góð tilfinning þegar þú veist að þú átt ljúfar stundir í vændum. Skoðið hvort annað og horfist í augu áður en þið gerið nokkuð. Sendið hvort öðru daðursleg sms og kyndið upp fyrir stefnumót kvöldsins.
2. ÁSTARATLOT Á ALMANNAFÆRI
Þá erum við ekki að tala um einn stuttan í bílnum eða inni á klósetti. Verið ástúðleg við hvort annað hvar sem er; í búðinni, í bílnum eða á veitingastaðnum. Lítil snerting eins og góður koss á hálsinn eða þétt faðmlag getur verið upphafið að forleiknum. Forleikurinn þarf ekki endilega að hefjast í svefnherberginu. Hann getur hafist mörgum tímum áður en komið er þangað.
3. HÆGAR HREYFINGAR
Þótt hraði eigi stundum vel við þegar ástríðurnar taka völdin, geta hægar hreyfingar verið mjög lostafullar. Ef þið ætlið að vera saman, skaltu segja honum að færa þig hægt úr fötunum, í stað þess að rífa þig úr, jafnvel þótt þú þráir hann út af lífinu. Það sama gildir ef þú ætlar að gæla við hann. Farðu þér hægt og láttu sem þú hafir alla nóttina (eða daginn) fyrir ykkur.
4. TALIÐ SAMAN
Það getur verið æsandi og spennandi að lýsa því með orðum hvað þú ætlar að gera við hann og hvað þér finnst fallegt við líkama hans. Það þarf ekki endilega að vera eitthvað kynferðislegt. Kannski elskar þú hvað eyrun á honum eru mjúk eða hendurnar sterklegar. Láttu hann svo segja þér hvað honum finnst best við líkama þinn og hvað hann elskar við þig. Slíkar samræður færa ykkur nær hvort öðru.
5. GÓÐ TÍMASETNING
Það er bara í bíómyndunum sem fólk er tilbúið að stökkva upp í rúm hvar og hvenær sem er. Við venjulega fólkið erum misjafnlega upplögð fyrir kynlíf. Finnið ykkur góðan tíma sem alltaf hentar ykkur vel til kynlífs. Mörgum pörum finnst frábært að fara í sturtu saman á morgnana og eiga síðan ljúfar stundir saman í rúminu áður en erill hversdagsins hefst. Sumir segja einnig að gott kynlíf áður en haldið er á fínan veitingastað sé æðislegt og geti valdið því að kvöldið verði afslappað og skemmtilegt.
6. EKKI RÍFAST Í RÚMINU
Gerðu svefnherbergið að griðastað þar sem bannað er að rífast. Talið saman og gerið út um málin áður en þið eruð komin upp í rúm. Það gæti þýtt að þið hættuð við að sofa saman í það skiptið en það er betra að hreinsa andrúmsloftið heldur en að sofa hjá meðan málin eru ekki útkljáð.
7. GÓÐ TENGSL
Reyndu að vera alltaf í snertingu við einhvern líkamshluta hans allan tímann. Haltu t.d. í hönd hans á meðan þið komið ykkur fyrir, ef þið skiptið um stellingu meðan á samförum stendur. Svona svipað og þegar þú ert í nuddi þá sleppir nuddarinn aldrei af þér snertingunni.
8. LÁTTU LEIKFÖNGIN BÍÐA
Skemmtileg kynlífsleikföng, æt nærföt og erótískar myndir eiga fullkomlega rétt á sér við réttar aðstæður. En ef þú hefur hugsað þér að eiga einstaklega ljúf og náin kynmök við elskhugann mega slík hjálpartæki bíða betri tíma. Það er örugglega svolítið erfitt að vera ljúf og ástúðleg í lakkrísnærfötum með svipu í hendi!
Prófið kannski eitthvað af ofantöldu og sjáið hvort það gefi ekki smá lit í ykkar litlu leynitilveru.
Luv, Bella
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.