Nú á dögunum kom út seinasta Twilight myndin í fjögurra mynda seríu og eins og fyrri myndirnar er þessi alveg frábær!
Það þarf ekki að taka allar kvikmyndir alvarlega og sumar myndir eru það lélegar að þær fara allann hringinn og verða “góðar” fyrir það hve lélegar þær eru.
Twilight serían fellur vel í þann flokk kvikmynda.
Eins og fyrri myndirnar fjallar þessi mynd um Bellu Swan og svakalega ástríðufullt samband hennar og vampírunnar Edward Cullen.
Myndin byrjar þegar þau eru nýbúin að eignast stelpu saman og þegar Bella er nýbúin að fá draum sinn uppfylltan um að fá loksins að verða vampíra. Litla stelpan þeirra er auðvitað, eðli málsins samkvæmt, hálf mennsk og hálf vampíra og snýst söguþráðurinn í Breaking Dawn: Part II að stóru leyti um baráttu Bellu og Edwards fyrir því að finna út úr því hvernig þau eigi að halda þessu undrabarni á lífi.
Fyrir utan fáranlega lélega tölvuvinnslu og förðun, sem maður sér næstum aldrei í dag í Hollywood-myndum af þessari stærðargráðu, þá hefur myndin flott útlit. Þrátt fyrir gapandi holur í söguþræðinum og fáranlegar samræður á köflum þá koma nokkrir atburðir manni á óvart sem gerir myndina að alveg ágætis afþreyingu. En það sem er alveg sérstaklega undravert við Twilight seríuna er hvernig framleiðendunum hefur tekist að sannfæra hóp af mestmegnis góðum leikurum til þess að leika í þessum myndum, sérstaklega er undarlegt að taka eftir því að leikur þessara mestmegnis góðu leikara er oftast langt frá því að vera sannfærandi. Dakota Fanning er sú sem stendur sig líklega best og það er líklega af því hún segir bara eitt eða tvö orð í allri myndinni.
Þrátt fyrir allt er Twilight hin mesta skemmtun ef maður endurflokkar hana frá því að vera dramamynd yfir í það að vera gamanmynd og ef maður fer á hana með opnu hugarfari!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=2DYH2t8fCqo[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.