Um síðustu helgi leigði ég mér mynd á Vodafone leigunni. Danska mynd sem heitir Hævnen. Myndin er eftir leikstýruna Susanne Bier en henni tókst svo vel upp með verkið að hún fór heim til sín með Óskarsverðlaunin í febrúar á þessu ári.
Myndin segir frá Antoni, sænskum lækni sem vinnur á neyðarsvæðum í Súdan. Konan hans er hjúkrunarfræðingurinn Marianne en vegna fjarverustunda Antons eru komnir brestir í sambandið. Sonur þeirra verður fyrir einelti í skólanum en myndin hefst á því að hann eignast nýjan vin sem veitir honum styrk í baráttunni. Sá heitir Christian, er nýbúin að missa mömmu sína úr krabbameini og býr ásamt pabba sínum hjá ríkri ömmu. Christian er ‘streetwise’ eins og það kallast. Tólf ára. Búin að búa víða um heiminn og kann að bregðast við eineltinu með því að láta auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Um það fjallar einmitt myndin. Hefndina og allt sem henni fylgir.
Mest þótti mér þó áberandi flott hvernig leikstýra og handritshöfundur tókust á við tilfinningalíf karlmannanna í myndinni. Bæði þá tvo eldri og litlu strákanna. Þetta var gert af stakri næmni og með einstaklega fallegum hætti sem sjaldan sést í kvikmyndum þar sem karlmenn og karlmennska er oft túlkuð á heldur grunnan máta.
Reyndar má segja það sama um gildi og hlutverk kvenna í kvikmyndum, þetta eru oftast stereótýpur og því einstaklega frískandi þegar kvikmyndagerðarmenn ná fram annarskonar nálgun á kvenhlutverkin (t.d. í myndum eins og Thelma and Louise eða Juno).
Hævnen er klárlega á topp 10 listanum mínum yfir bestu myndir ársins. Reyndar er ég farin að stóla á Norræna kvikmyndagerð þegar mig langar í alvöru skemmtun, hvort sem um er að ræða spennu eða drama: Karlar sem hata konur (og öll sú trílógía), Vargur Véum, Vallander og ótal fleiri myndir og þættir frá Norðurlöndunum eru orðnar að fyrsta vali enda varla að finna nýjar norrænar myndir sem skora undir 7 á IMDB.
Endilega veldu þessa mynd næst þegar þig langar að sjá eina virkilega góða…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=MPuqCFOgeFc[/youtube]Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.