The Big Short – Brad Pitt og Ryan Gosling í sömu mynd, samt ekki sexý…

The Big Short – Brad Pitt og Ryan Gosling í sömu mynd, samt ekki sexý…

Ég fór í bíó síðasta sunnudagskvöld að sjá The Big Short. Myndin segir frá aðdraganda bankahrunsins, eða því hvernig nokkrir verðbréfamiðlarar komu auga á að hrunið væri í aðgsigi, rúmum tveimur árum áður en það svo átti sér stað.

Þetta er fyrsta myndin sem ég sé sem miðar að því að gera upp þetta bankahrun sem varð á flestum vesturlöndum árið 2008. Svona uppgjörsmyndir eftir hörmungar eru algengar, hvað hafa til dæmis ekki verið gerðar margar myndir um síðari heimstyrjöldina?

Hér á landi virðast sumir enn halda að hrunið hafi verið eitthvað einsdæmi spilltra stjórnvalda á klakanum en svo er sannarlega ekki. Í raun vorum við bara einn dómínókubbur í rosalegri lengju sem teygði anga sína um allan heim. Rót vandans var ósköp einföld, græðgi og spilling. Same old story.

Besta myndin að mati fagmanna

Myndin skartar einvala liði karlleikara en Ryan Gosling, Brad Pitt og Christian Bale eru meðal þeirra.

the big short poster newChristian Bale er sérlega stórkostlegur sem Michael Burry, stærðfræðisnillingur með gerviauga og ömurlega færni í mannlegum samskiptum en allir aðrir leikarar standa sig með prýði enda frábær hópur. Þetta er þó í eitt af fáum skiptum þar sem Ryan Gosling og Brad Pitt eru engan vegin sexý, – það gerir myndina þó ekki verri.

Kvikmyndagerðarmönnunum tekst alveg ótrúlega vel að skýra frekar flókin hugtök fyrir okkur venjulega liðinu með því að nota myndmál og já, fá t.d. Selenu Gomez til að útskýra vafninga og gerfivafninga og sitthvað fleira “spennandi”.

Tónlistarmyndbönd og fleira skemmtilegt er notað til að útskýra dæmin og sagan er sögð frá nokkrum mismunandi sjónarhornum.

Svo vel tókst leikstjóranum upp með þessa mynd að samtök framleiðenda í Hollywood, (Producers Guild of America), völdu hana bestu mynd síðasta árs og skaut hún þannig öðrum afbragðs myndum ref fyrir rass. Meðal þeirra voru Bridge of Spies, Brooklyn, Ex Machina, Mad Max: Fury Road og Straight Outta Compton. Alls voru  7 þúsund framleiðendur í Hollywood sem eru meðlimir í PGA-samtökunum sem völdu The Big Short bestu mynd síðasta árs.

Aðrar myndir sem fengu verðlaun voru Inside Out sem besta teiknimyndin, Amy sem besta heimildarmyndin, Fargo sem besta sjónvarpsmyndin- eða stutta þáttaröðin, Game of Thrones sem besta dramaþáttaröðin, Transparent sem besta gamanþáttaröðin og Comedians in Cars Getting Coffie sem besta netþáttaröðin. Það segir sig þannig sjálft að þetta er mynd sem enginn unnandi góðra mynda má missa af.

Fáránlega fáar konur

Hinn eini sanni Michael Burry, enn í fullu fjöri og fjárfestir bara í einni tegund verðmæta – Vatni.

Það eru bara sex konur sem leika í myndinni og þar af aðeins þrjár sem tala meira en tvö orð. Pínu fríkað.

Kannski er það vegna þess að orkan sem þetta snýst allt um er keppnisorka. Verðbréfasalar og bankamenn keppast við að græða meira og meira, meira í dag en í gær, meira en Jói í næsta banka og strákar virðast æstari í keppni en stelpur.

Allar konurnar í myndinni eru “skvísur” fyrir utan eina gamla hjá matsfyrirtæki sem lét beisikklí múta sér til að gefa lánum góðar einkunir. (Hinar konurnar eru meira eða minna eitthvað fyrir augað, örugglega svo að bankastrákarnir sem fara að sjá myndina í bíó verði pínu glaðir líka.)

Best var auðvitað stripparinn sem hafði keypt sér fimm hús og eina íbúð á lánum. Það segir kannski allt sem segja þarf um ástandið eins og það var. Og svo hitt… ég hef ekki séð eina einustu mynd um Wall Street, bankamenn og verðbréfasala þar sem stripparar koma ekki við sögu. Helvítis ólifnaður.

NIÐURSTAÐA

Hvaða lærdóm dregur maður svo af mynd um mennina sem sáu bankahrunið fyrir? Jú, ég fór strax og gúgglaði Michael Burry þegar ég kom heim. Því næst skoðaði ég húsnæðislánin mín. Og svo fór ég að hugsa að maður þyrfti kannski að vera betur að sér í bankatungumáli og gúgglaði meira.

Hver er sinnar gæfu smiður, – og þá sérstaklega þegar kemur að fjármálum. Það gæti líka alveg komið annað hrun. Michael Burry segir það.

Frábær mynd. Fjórar og hálf stjarna! 4.5 out of 5 stars (4,5 / 5)

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest