Ég er búin að bíða eftir því að kvikmyndin Snow White and The Huntsman komi í bíó í langan tíma.
Ein aðalástæðan fyrir því er sú að ég held mikið upp á Kristen Stewart, þó að hún hafi tekið feilspor í hlutverkavali, þá finnst mér hún hafa staðið sig vel í flestum hlutverkum sem ég hef séð hana í.
Í stuttu máli þá olli myndin mér alls ekki vonbrigðum, þó að í henni hafi verið atriði sem ég hefði viljað sjá gerð öðruvísi þá er það þannig í langflestum myndum.
Ég var glöð að sjá að Mjallhvít var ekki dregin upp eins og hún er gerð í upprunalega ævintýrinu, sem kona sem þarf karlmann til að bjarga sér. Í þessari kvikmynd þarfnast hún vissulega hjálpar og hún fær hana frá karlmönnum en hún hjálpar þeim engu að síður. Hún er sýnd sem sterk og sjálfstæð persóna og karlmennirnir sem hjálpa henni líta upp til hennar og trúa á styrk hennar. Í stað þess að ævintýrið snúist um hina endalausu makaleit, sem margar Hollywood myndir virðast snúast um, sýnir Snow White and the Huntsman vissulega einhver þannig atriði en þau verða aldrei að neinu aðalatriði. Sem er góð tilbreyting frá norminu.
Myndin snýst að vissu leyti um ytri fegurð vegna illu drottningarinnar sem er mjög fögur á að líta en ljót að innan þó hún fái framan af þau svör frá speglinum að hún sé fegurst í konungsríkinu. Þetta snýst svo skemmtilega við þegar Mjallhvít, sem býr ekki yfir jafn mikilli ytri fegurð og drottningin en stendur henni framar þegar kemur að innri fegurð, verður fullburða og spegillinn segir að hún muni verða drottningunni fegurri.
Myndin er nokkuð dökk á köflum og vil ég því vara foreldra við að fara með börn á kvikmyndina, það voru nokkur börn undir 12 ára í salnum þegar ég fór og þau virtust öll vera nokkuð skelkuð þegar stríðsatriði og dráp voru framin í myndinni. Þó að þessi mynd byggist á ævintýri sem ætlað er börnum þá er myndin bönnuð innan 12 ára og góð ástæða fyrir því!
Ég hvet alla (sem hafa aldur til) til að fara í Laugarásbíó á þessa vel gerðu kvikmynd sem sýnir okkur annað sjónarhorn á klassíska ævintýrið um Mjallhvíti og dvergana sjö.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=2-UMNSVX7_I[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.