Kvikmyndir: Reykjavík eftir Ásgrím Sverris – Ég mæli með henni!

reykjavik_kvikmynd

Ég elska bíómyndir og ég elska að fara í bíó. Popplyktin og eftirvæntingin sem fylgir því að sjá glænýja kvikmynd. Elska það!

Bíómyndir geta nefninlega haft mikil áhrif á okkur, gefið okkur hugrekki í ástarmálum, fyllt okkur von og gleði, skapað fatastíl okkar, mótað fegurðarskyn og gert okkur fáránlega myrkfælin ef maður asnast til að horfa á hryllingsmyndir sem láta mig en þann dag í dag kíkja bakvið hurðar og sofa með smá ljós eftir slíka “skemmtun”.

Svo er líka uppáhalds líkamsræktin mín að horfa á kvikmynd sem er það spennandi að þú situr með spennta kviðvöðva í 90 mínútur, nánast án þess að hreyfa þig. Maður fær six pack.

Fullorðið fólk, væntingar og veruleiki

Íslenskar kvikmyndir eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og finnst mér mjög skemmtilegt að hafa séð tvær léttar og rómantískar Íslenskar kvikmyndir á stuttum tíma.

Kvikmyndin Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson var frumsýnd í vikunni sem leið með tilheyrandi pompi og prakt.

Myndin speglar á skemmtilegan og raunverulegan hátt samskipti kynjanna og flækjur þess að vera fullorðin manneskja sem verður að taka ábyrgð á ýmsu, bæði til þess að fylgja sínum draumum eða upfylla annara manna drauma sem eins og allir vita getur bara verið svolítið flókið. Stundum skarast á glansmyndin af lífinu sem þú ætlaðir þér all harkalega við raunveruleikann.

Ástríða leikstjórans fyrir kvikmyndagerð skín í gegn og hún er mjög fallega tekin myndrænt séð.

Atli Rafn og hin glæsilega Nanna Kristín Magnúsdóttir fara með aðalhlutverkin og leika þau bæði með stökustu prýði ásamt góðu úrvali af leikurum; Gudmundur Thorvaldsson, Gríma Kristjánsdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Björn Thors, Stefán Hallur Stefánsson, Hafsteinn Vilhelmsson og Níels Thibaud Girerd eru meðal þeirra sem koma við sögu.

Svo fannst mér unga leikonan Gríma Kristjánsdóttir verulega skemmtileg… og viti menn það er mikið af djazz í myndinni! Reyndar get ég verið soldið viðkvæm fyrir því, það er að segja ef djazzinn er of framúrstefnulegur en í myndinni Reykjavík blandast tónlist, leikur og mynd svo fallega saman að útkoman verður alveg frábær.

Mér finnst Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson skemmtilegt innlegg í íslenska kvikmyndasögu. Þetta er hugljúf og rómantísk mynd sem ég mæli heilshugar með. Allir í bíó!

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Kvikmyndir: Reykjavík eftir Ásgrím Sverris – Ég mæli með henni!