Kvikmyndin “Reconstruction” eftir danska leikstjórann Christoffer Boe. Titilinn ku vera á íslensku “Endurgerð” og gefur strax til kynna að áhorfandi þurfi að endurgera myndina í huganum sjálfur, jafnvel finna eigin merkingu eða að leikstjórinn vilji ná einhverju fram í annað sinn.
Jafnvel þó myndin sé í “Film Noir” stíl, karakterarnir keðjureyki og að hún fjalli um ástina er ekkert klisjulegt við þessa mynd. Þetta hljómar eins og mótsögn. Sagan er brotakennd og fjallar um nokkrar persónur og líf þeirra sem fléttast saman.
Það eru fjórir aðalleikarar og tvær aðalkvenpersónurnar eru leiknar af sömu konunni. Alex sem er ungur maður og á kærustu sem heitir Simone gengur inn á bar og verður ástfanginn um leið af konu sem heitir Amiee. Amiee og Simone eru leiknar af sömu leikkonu sem fær áhorfandann til þess að hugsa um það hvort Alex sé að verða ástfanginn í annað sinn af sömu persónu eða hvort ástin sé að fá annan séns? Svo ég tali nú ekki um þessa kunnuglegu tilfinningu sem fólk fær er það verður ástfangið; “Þekki ég þig?”, “Hef ég séð hann/hana einhversstaðar áður?” o.s.frv.
Mikið af þeim senum þar sem Alex og Amiee eru að hittast, byrja eins. Alltaf er eins og þau séu að hittast í fyrsta skipti, eða byrja upp á nýtt. Hver koss þeirra er eins og fyrsti kossinn. Rómantískt? … JÁ!
Svo er myndin líka með enn fleiri tvist, eins og það að eiginmaður Amiee er handritshöfundur. Á vissum tímapunkti kemur það út eins og hann sé að skrifa ástarsögu um konuna sína inn í kvikmyndina. Þetta getur ringlað áhorfandann svolítið en það er samt ekki um of. Manni finnst myndin verða enn meira spennandi fyrir vikið. Enda er ekki ástin ringlandi og kemur hún ekki á óvart?
Svo má túlka fyrir sjálfan sig…sumir myndu segja að veröld Alex hrynji vegna þess samvikubits sem hann fær fyrir að hafa farið á bak við Simone. Hann verði hálf geðveikur á þessari reynslu sinni eða geðveikislega ástfanginn! Aðrir myndu segja að ástin sé eins og draumur, þar sem draumurinn er það eina sem er raunverulegt.
Myndin verður einhvernveginn miklu rómantískari fyrir þá sök að vera gerð af á þennan brotakennda hátt. Af næmni gefur hún ástinni miklu heiðarlegri og betri skil en hvaða Hollywoodklisja sem er. Viltu horfa á rómantíska mynd og upplifa eitthvað nær raunveruleikanum? Farðu þá fjær!
Til þess að gefa betri hugmynd er best að láta myndmálið tala, hér er má gægjast:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=mdelvhxLMKU[/youtube]
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.