Hvernig eru viðbrögð 12 ára stelpu sem kemur að stóra bróður sínum, og átrúnaðargoði, látnum eftir hryllilegt slys.
Viðbrögð Heru Karlsdóttur, aðalpersónu kvikmyndarinnar Málmhaus, voru að klæðast hljómsveitarbol stóra bróður, taka upp rafmagnsgítarinn hans og byrja að spila þungarokk.
Hún einangar sig smátt og smátt inn í tónlistina, verður uppreisnargjörn og á samskipti við fáa í sveitinni þar sem hún býr, fáa aðra en kýrnar og einn æskuvin sinn. Á sama tíma þróar hún með sér færni í tónlistinni, tónlist sem enginn skilur í kringum hana þar til dag einn að nýr maður mætir í sveitina.
Málmhaus er einstaklega falleg saga að mínu mati. Þar sem hún gerist meira eða minna í fámennri sveit er lítið talað í henni fyrstu mínúturnar en myndmálið ræður ferðinni. Það þarf virkilega góðan leikstjóra til að halda athygli áhorfanda á skjánum án þess að miklar samræður fari fram og Ragnar Bragason sýnir þarna og sannar eina ferðina enn að hann er góður leikstjóri. Einn sá allra besti sem ísland hefur alið. Ég hélt að minnsta kosti fullri athygli frá fyrstu til síðustu mínútu.
Eins og Lisbet Salander
Mér fannst sérstaklega gaman að karakternum Heru. Það er svo frískandi að sjá óvanalegar kvenpersónur í kvikmyndum. Konur eiga það til að falla í stereótýpísk hlutverk sem eiginkonur, einhleypar konur í leit að ástinni eða mömmur. Hera er ekkert af þessu. Á vissan hátt minnti hún mig á Lisbeth Salander úr Stig Larson þríleiknum. Sú var reyndar pönkari meðan Hera er þungarokkari en báðar stinga í stúf og þá sérstaklega Hera, máluð sem dauðarokkari innan um pollrólegar beljurnar í sveitinni. Svolítið einmanalegt. Eða eins og ég hef stundum orðað þetta fyrirbæri – “Eini gotharinn í Grenivík”.
Sagan gengur þó í megindráttum ekki út á hvernig Hera er ‘öðruvísi’ sem uppreisnargjörn þungarokksstelpa heldur hvernig hún og fjölskylda hennar tekst á við sorgina eftir bróður og sonarmissinn, sambandið þeirra á milli, samband Heru við sveitunga sína, – og svo hvernig þetta þróast allt saman með tímanum, í átt til hins betra, án þess að ég gefi meira upp.
Með aðalhlutverk í Málmhaus fara Þorbjörg Helga Dýrfjörð, Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Jörundur Ragnarsson og Hannes Óli Ágústsson og öll skila þau sínu með glæsibrag. Mér fannst Þorbjörg Helga sérlega frábær í hlutverki Heru. Mjög trúverðug og flott á allann hátt og ég vonast til að sjá hana í fleiri myndum. Hér er Facebook síðan fyrir Málmhaus og fyrir neðan er sýnishorn.
Málmhaus verður frumsýnd á Íslandi þann 11. október.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=dyxhcNsjWKI[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.