Ef þú fílar súrrealískar, fallegar myndir á borð við Amélie, Eternal Sunshine of the Spotless Mind og Moonrise Kingdom þá mæli ég með Mood Indigo.
Mood Indigo er gerð eftir samnefndri bók (L’écume des jours – upprunalega þýtt sem Froth on a Daydream) frá árinu 1947 eftir franska rithöfundinn Boris Vian. Bókin er í seinni tíð talin vera meistaraverk Vians en það var ekki mikið tekið eftir henni þegar hún var gefin út.
Michel Gondry (Eternal Sunshine of the Spotless Mind) færði bókina yfir í handrit og leikstýrði henni og útkoman er hreint út sagt glæsileg. Tæknibrellurnar færa myndinni skemmtilegt yfirbragð og þær ásamt umhverfinu í myndinni ná gjörsamlega að stjórna tilfinningum manns á meðan horft er á myndina. Mood Indigo fjallar um Colin, ungan velefnaðan mann sem einn daginn ákveður að hann þurfi að verða ástfanginn þar sem einmanakennd hans sé óásættanleg. Vinur hans Chick og þjónninn hans og lögfræðingur Nicolas (Omar Sy – The Intouchables) sjá til þess að Colin verði kynntur fyrir Chloé (Audrey Tautou). Colin og Chloé verða ástfangin og gifta sig nokkrum mánuðum síðar en hjónaband þeirra er því miður ekki dans á rósum þrátt fyrir ást þeirra á hvoru öðru.
Það voru nokkrir punktar í myndinni sem maður átti erfitt með að tengja við, þá aðallega vegna órökrænna gjörða persónanna eða vegna þess að það vantaði tengingar á milli atriða en eftir því sem mér skilst er bókin líka sett upp á svipaðan hátt. Þessi atriði höfðu samt ekki mikil áhrif á álit mitt á myndinni og hún er svo mikil veisla fyrir augað og ímyndunaraflið að mig langar strax að sjá hana aftur! Colin og Chloé eru líka hið fullkomna “krúttpar” og umhverfið og atburðirnir sem umkringja þau vekja mann svo sannarlega til umhugsunnar.
Mood Indigo er bara sýnd í besta bíóinu: Bíó Paradís.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=MNVfBmjiN1k[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.