Um þessar mundir er enn í sýningu kvikmynd um Hönnu Arendt í Bíó Paradís, en myndin var svo vinsæl á Þýskum kvikmyndadögum að ákveðið var að hafa hana áfram í sýningu.
Hún fjallar um heimspekinginn og „fjölfræðinginn” Hönnu Arendt sem skók heiminn með því sem hún kallaði „lágkúrulega illsku“. Arendt var frá Þýskalandi og af gyðingaættum. Hún flúði til Bandaríkjanna í seinni heimstyrjöld og skrifaði fjölmargar bækur og greinar.
Myndin fjallar um það er Hannah Arendt var fengin til þess að skrifa fyrir The New Yorker um réttarhöldin yfir nasistanum Adolf Eichmann í Jerúsalem 1961. Skrif Arendt þóttu afar ögrandi og áleitin en þau vörpuðu ljósi á Helförina út frá forsendum sem enginn hafði áður heyrt. Skrif hennar vöktu mikla hneykslun en hún neitaði að gefa eftir. Í stað þess hélt hún áfram að leita sannleikans, jafnvel þó það hefði mikinn sársauka í för með sér.
Kvikmyndin um Hönnuh Arendt bregður upp svipmynd af snillingi og vekur upp enn frekari áhuga á persónu hennar. Því það er ekki aðeins hvernig hún tekst á við hugðarefni sín sem er spennandi heldur einnig hvernig hún tekst á við sín eigin persónulegu málefni. En ekki er víst að það hafi alltaf verið auðvelt að horfast í augu við raunveruleikann…
Myndin veitir innsýn inn í hugrakka nálgun á erfiðu viðfangsefni auk þess að vekja hvern og einn til meðvitundar gildi þess að einfaldlega „hugsa”.
Það er auðvelt að mæla með þessari vel gerðu og virkilega áhugaverðu mynd sem hlotið hefur ýmis verðlaun. Þetta er einmitt myndin til þess að fara ein í bíó á og leyfa sér að vera í friði með hugsunum sínum á eftir 😉
[youtube]http://youtu.be/WTQNWgZVctM[/youtube]
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.